Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,7% í 4,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf sextán félaga aðalmarkaðarins lækkuðu í dag og fjögurra hækkuðu.

Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,7% í 4,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf sextán félaga aðalmarkaðarins lækkuðu í dag og fjögurra hækkuðu.

Mesta breytingin var á gengi hlutabréfa Skeljar fjárfestingarfélags sem hækkaði um 5,3% í hundrað milljóna króna viðskiptum. Hlutabréfaverð Skeljar stóð í 17,0 krónum á hlut við lokun Kauphallarinnar en til samanburðar þá var dagslokagengi félagsins síðast lægra í febrúar.

Skel tilkynnti klukkan tvö í dag að áreiðanleikakönnunum vegna fyrirhugaðs samruna Samkaupa og tiltekinna félaga í samstæðu Skeljar væri lokið. Fram kom að áætlaður hlutur Skeljar í sameinuðu félagi hefði hækkað úr 42,7% í 47% frá því að skrifað var undir viljayfirlýsingu vegna mögulegs samruna um miðjan maímánuð.

Þrjú félög lækkuðu um 2 prósent eða meira í dag en það voru Play, Hagar og Iceland Seafood. Þá féll gengi Alvotech um 1,3% í 262 milljóna veltu og stendur nú í 1.545 krónum á hlut, og er nú um 2,5% lægra en í upphafi árs.