Fjármagn streymdi inn í hlutabréfasjóði í október og nóvember síðastliðnum. Í október námu kaup á hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóði tæplega 1,9 milljörðum króna, en innlausn hlutdeildarskírteina 1,1 milljarði króna.

Því nam hreint innflæði í hlutabréfasjóði 838 milljónum króna í október. Um viðsnúning er að ræða því átta mánuði þar á undan nam hreint útflæði samtals 4,2 milljörðum króna.

Í nóvember hélt þessi þróun áfram. Námu kaup á hlutdeildarskírteinum í hlutabréfasjóði rúmlega 2,5 milljörðum króna, en innlausn skírteina 1,9 milljörðum króna. Nam hreint innflæði í hlutabréfasjóði því 623 milljónum króna í nóvember.

Þetta kemur fram í tölum Seðlabankans um eignir verðbréfa- og fjárfestingasjóða, sem birtar voru í byrjun árs.

Alexander Jensen Hjálmarsson, stofnandi Akkurs, segir að mikið fjármagn hafi leitað úr hlutabréfasjóðum á síðastliðnum árum en þróunin sé að breytast.

„Maður er fljótur að gleyma því að frá því í febrúar 2022, þegar innrás Rússa í Úkraínu hófst, og til nóvember 2024 hefur nettó útflæði úr hlutabréfasjóðum numið 19 milljörðum króna.

Til samanburðar er stærsti hlutabréfasjóðurinn, Stefnir – innlend hlutabréf, um 23,5 milljarðar króna að stærð. Þetta er því sambærilegt því ef næststærsti hlutabréfasjóðurinn væri farinn af markaðnum.“

Hann segir skriðþungann vera að breytast eftir þrjá mánuði í röð af nettó innflæði í hlutabréfasjóði. Þó eigi enn eftir að vinna upp mikið útflæði.

„Nú erum við að fara úr þessu útflæðistímabili og erum í fyrsta sinn síðan innrásin hófst komin með þrjá mánuði í röð af nettó innflæði í hlutabréfasjóði, þótt það hafi verið lítið í september. Skriðþunginn er að breytast. Þrátt fyrir það eru þetta ennþá 19 milljarðar af nettó útflæði sem á eftir að vinna upp.“

Alexander Jensen Hjálmarsson, stofnandi Akkurs - greiningar og ráðgjafar.
© M MYND/Karítas Sveina Guðjónsdóttir (M MYND/Karítas Sveina Guðjónsdóttir)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.