Þriðji og fjórði ársfjórðungur 2023 reyndist erfiður fyrir bandaríska banka, þar sem háir vextir leiddu til verðfalls á skuldabréfum og lánum í eignasöfnum þeirra.
Fjárfestar voru fljótir að flýja banka sem voru með stór vandræðasöm eignasöfn en vandamálið var ekki einungis bókfærða tapið heldur var verðfall skuldabréfanna að setja eiginfjárhlutfall í uppnám og draga úr tekjum vegna lágs vaxtarávinnings.
Árið 2024 hefur hins vegar reynst mun betra og samkvæmt uppgjöri fjórða ársfjórðungs skiluðu bankarnir hækkandi kjarnatekjum, aðallega vegna þess að eldri skuldabréf með lágum vöxtum voru að nálgast gjalddaga og hafa bankarnir verið að endurfjárfesta í nýjum skuldabréfum sem bera hærri vexti.
Þetta hefur leitt til aukins vaxtamunar, sem mælir ávöxtun af peningum, eignum og lánum samanborið við það sem bankar greiða fyrir innlán og aðra fjármögnun.
Bank of New York Mellon (BNY) var meðal þeirra banka sem sköruðu fram úr á fyrsta degi uppgjörtímabilsins vestanhafs en bankarnir hafa verið að birta árshlutauppgjör í vikunni.
Hlutabréfaverð BNY hækkaði um 8% á miðvikudaginn, sem er tvisvar sinnum meira en KBW Nasdaq-bankavísitalan hækkaði sama dag.
Bankinn sagði í uppgjörinu að vaxtamunur myndi vaxa um nokkur present fyrir árið 2025.
Sama dag gaf Bank of America til kynna að vaxtamunur bankans árið 2025 myndi vaxa um 6% til 7%.
Gengi Bank of America lækkaði þó um 1% eftir að tilkynningin var birt.
Aftur á móti gerir JPMorgan Chase ráð fyrir lítilli lækkun á vaxtamun á næsta ári, og Wells Fargo spáir 1% til 3% vexti.
Hlutfall skuldabréfa í eignasöfnum bankanna er hugsanlega lykilbreyta að mati The Wall Street Journal.
Í fjórða ársfjórðungi var hlutfall skuldabréfa um þriðjungur af heildareignum hjá BNY. Hlutfallið var 27% hjá Bank of America, 16% hjá JPMorgan Chase og 21% hjá Wells Fargo.
En þó svo að bætt vaxtakjör komi bankakerfinu til góða eru margir bankar enn með veruleg bókfærð töp á eldri lágvaxtarskuldabréfum.
Ef Seðlabanki Bandaríkjanna breytir stefnunni og fer aftur að hækka vexti gæti þetta haft neikvæð áhrif aftur.
Eftir kórónuveirufaraldurinn voru bankar aðallega að ávaxta fjármagn í skuldabréfum vegna offramboðs innlána en það tímabil er liðið undir lok. Hærri vextir muni því ekki endilega leiða til þess að söguleg töp endurtaki sig.