Þriðji og fjórði árs­fjórðungur 2023 reyndist erfiður fyrir bandaríska banka, þar sem háir vextir leiddu til verð­falls á skulda­bréfum og lánum í eignasöfnum þeirra.

Fjár­festar voru fljótir að flýja banka sem voru með stór vandræðasöm eignasöfn en vanda­málið var ekki einungis bók­færða tapið heldur var verðfall skuldabréfanna að setja eigin­fjár­hlut­fall í upp­nám og draga úr tekjum vegna lágs vaxtarávinnings.

Árið 2024 hefur hins vegar reynst mun betra og samkvæmt uppgjöri fjórða árs­fjórðungs skiluðu bankarnir hækkandi kjarna­tekjum, aðal­lega vegna þess að eldri skulda­bréf með lágum vöxtum voru að nálgast gjald­daga og hafa bankarnir verið að endur­fjár­festa í nýjum skulda­bréfum sem bera hærri vexti.

Þetta hefur leitt til aukins vaxta­munar, sem mælir ávöxtun af peningum, eignum og lánum saman­borið við það sem bankar greiða fyrir inn­lán og aðra fjár­mögnun.

Bank of New York Mellon (BNY) var meðal þeirra banka sem sköruðu fram úr á fyrsta degi upp­gjörtíma­bilsins vestan­hafs en bankarnir hafa verið að birta árs­hluta­upp­gjör í vikunni.

Hluta­bréfa­verð BNY hækkaði um 8% á miðviku­daginn, sem er tvisvar sinnum meira en KBW Nas­daq-banka­vísi­talan hækkaði sama dag.

Bankinn sagði í upp­gjörinu að vaxta­munur myndi vaxa um nokkur present fyrir árið 2025.

Sama dag gaf Bank of America til kynna að vaxta­munur bankans árið 2025 myndi vaxa um 6% til 7%.

Gengi Bank of America lækkaði þó um 1% eftir að til­kynningin var birt.

Aftur á móti gerir JP­Morgan Chase ráð fyrir lítilli lækkun á vaxta­mun á næsta ári, og Wells Far­go spáir 1% til 3% vexti.

Hlut­fall skulda­bréfa í eignasöfnum bankanna er hugsan­lega lykil­breyta að mati The Wall Street Journal.

Í fjórða árs­fjórðungi var hlut­fall skulda­bréfa um þriðjungur af heildar­eignum hjá BNY. Hlut­fallið var 27% hjá Bank of America, 16% hjá JP­Morgan Chase og 21% hjá Wells Far­go.

En þó svo að bætt vaxta­kjör komi banka­kerfinu til góða eru margir bankar enn með veru­leg bók­færð töp á eldri lág­vaxtar­skulda­bréfum.

Ef Seðla­banki Bandaríkjanna breytir stefnunni og fer aftur að hækka vexti gæti þetta haft neikvæð áhrif aftur.

Eftir kórónu­veirufar­aldurinn voru bankar aðal­lega að ávaxta fjár­magn í skulda­bréfum vegna of­fram­boðs inn­lána en það tíma­bil er liðið undir lok. Hærri vextir muni því ekki endi­lega leiða til þess að sögu­leg töp endur­taki sig.