Afar rólegt var á skuldabréfamarkaði í morgun eftir að Bjarni Benediktsson forsætisráðherra gekk á fund Höllu Tómasdóttur forseta Íslands og lagði fram þingrofstillögu.
Verðbólguálag til skamms tíma lækkaði sáralítið er ávöxtunarkrafa á verðtryggða flokknum RIKS 26, sem er með gjalddaga í byrjun febrúar 2026, fór niður um 17 punkta í morgun.
Ávöxtunarkrafan hafði þó hækkað í lok dags á föstudaginn þegar titringur kom fram um möguleg stjórnarslit um helgina.
Samkvæmt sérfræðingum á skuldabréfamarkaði sem Viðskiptablaðið ræddi við eru fjárfestar fremur rólegir í dag og verið er að melta fregnir gærdagsins.
Verðbólguvæntingar gætu aukist með tímanum sem og önnur „óvissu-álög“ þar sem erfitt er að sjá hvernig ríkisstjórn tekur við fyrir lok árs.
Samkvæmt viðmælendum blaðsins snýr stærsta uppnámið að því hvað verður um sölu Íslandsbanka en ef ekki verður af henni er stórt gat í fjármögnun ríkissjóðs.
Fyrrnefndar hreyfingar á stutta verðtryggða bréfinu eru einnig að einhverju leyti tengdar upptöku kílómetragjalds og hvort eða hvernig slíkt gjald verður reiknað í vísitölu neysluverðs.
Eins og staðan er núna reikna skuldabréfafjárfestar með því að gjaldið umreiknist ekki í vísitölu neysluverðs en ef það helst kemur stór verðhjöðnunarmánuður í verðbólgumælingar í janúar.
Ef gjaldið verður þó hluti af vísitölunni og verðhjöðnun kemur ekki má búast við því að það verði neikvætt fyrir stutt verðtryggð skuldabréf.