Stephen Miran, helsti efnahagsráðgjafi Donalds Trump Bandaríkjaforseta, átti í vök að verjast á fundi með stærstu skuldabréfafjárfestum landsins í síðustu viku. Miran reyndi á fundinum að draga úr áhyggjum sem kviknuðu í kjölfar tollaaðgerða forsetans. Samkvæmt Financial Timesbenda viðbrögð fundargesta til þess að tilraunin hafi misheppnast.

Fundurinn, sem fór fram í Eisenhower-skrifstofubyggingunni við Hvíta húsið, var haldinn að frumkvæði Citigroup samhliða vorfundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þar sátu meðal annars fulltrúar frá fjárfestingarfyrirtækjunum Citadel, BlackRock, Tudor, PGIM og Balyasny. Tilefnið var umrót á skuldabréfamörkuðum eftir að Trump tilkynnti nýja tolla í byrjun apríl.

Gagnrýni á frammistöðu Mirans

Að sögn heimildarmanna Financial Times þótti mörgum frammistaða Mirans óörugg og lítt sannfærandi. Tveir þátttakendur lýstu orðum hans sem „óljósum“ og „ófullnægjandi“, og einn sagði hann einfaldlega „vera ekki í stakk búinn fyrir verkefnið“.

„Hann fékk spurningar – og þá fór allt til fjandans,“ sagði einn viðstaddur. „Þegar þú ert með áheyrendur sem þekkja málin í þaula, þá er auðvelt að sjá í gegnum fyrir fram samdar línur.“

Einn viðmælandi var þó jákvæðari en aðrir og tók undir áherslur stjórnvalda í skattalækkunum og afnámi íþyngjandi regluverks, sem hann taldi áfram hvetjandi fyrir atvinnulífið.

Óstöðugleiki vegna tollastefnu

Eftir að forsetinn tilkynnti tolla 2. apríl hríðféll virði bandarískra ríkisskuldabréfa. Markaðir róuðust tímabundið eftir að forsetinn frestaði aðgerðunum um 90 daga, en óvissan ríkir enn.

Ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa hefur lækkað úr 4,59% niður í 4,17%, sem bendir til áframhaldandi óróa meðal fjárfesta. En þegar krafan lækkar eykst virði bréfanna.

Á fundinum hélt Miran ítrekað fram yfirlýstri stefnu Hvíta hússins að tollarnir myndu skaða viðskiptasamstarfsaðila Bandaríkjanna meira en bandaríska neytendur. Hann lagði áherslu á að tilgangur tollanna væri ekki endilega til þess að afla tekna, þó að slíkar aukatekjur gætu verið „jákvæð aukaafurð“.

Hugmyndir Mirans undir vaxandi gagnrýni

Áður en Miran hóf störf fyrir forsetann hafði hann vakið athygli fyrir skrif þar sem hann lagði til nýjan alþjóðlegan sáttmála, svokallaðan Mar-a-Lago-sáttmála, sem myndi samræma alþjóðaviðskipti og öryggismál með hagsmuni Bandaríkjanna í forgangi.

Þar lagði hann m.a. til að veiking dollarans væri nauðsynleg og að erlendir skuldabréfaeigendur skyldu með beinum hætti taka þátt í fjármögnun bandarískra varnarmála gegn öryggistryggingum.

Slíkar hugmyndir hafa mætt mikilli andstöðu á fjármálamörkuðum, og samkvæmt heimildum FT hefur Miran í seinni tíð fjarlægt sig frá þessum hugmyndum í einkaviðræðum við fjárfesta. „Hann er að draga þær hugmyndir alfarið til baka,“ sagði einn viðmælandi.

Bessent lyftir andrúmsloftinu tímabundið

Á sama tíma og Miran fundaði með skuldabréfafjárfestum hélt Scott Bessent, fjármálaráðherra í ríkisstjórn Trump, fund með öðrum fjárfestum þar sem hann lýsti yfir bjartsýni um að viðskiptasamkomulag við Kína væri skammt undan. Orð hans stuðluðu að tímabundinni hækkun á hlutabréfamörkuðum.

Fundurinn með Miran hafði hins vegar gagnstæð áhrif.

Fjárfestar lýstu yfir óánægju með skilaboðin og efast um að Trump-stjórnin hafi skýra eða trúverðuga sýn á áhrif tollastefnunnar á markaði.