Hertz bíla­leigan þarf að greiða skulda­bréfa­fjár­festum um 270 milljóna dala vaxta­greiðslu sem hefðu mátt átt von á áður en bíla­leigan fór í greiðslu­stöðvun árið 2021.

Höfuð­stóll skuldarinnar var greiddur að fullu en sam­kvæmt dóm­stóli í New York þurfti bíla­leigan að greiða vextina einnig.

Endur­skipu­lagning Hertz eftir greiðslu­stöðvunina gekk vonum framar en hlut­hafar fengu greiddan út 1,1 milljarð dala er bíla­leigan var seld til hóps einka­fjár­festa.

Skulda­bréfa­eig­endur töldu sig þó hlunn­farna í við­skiptunum.

Að mati dómsins var hlut­höfum hampað á kostnað kröfu­hafa sem höfðu þó fengið 2,7 milljarða dala greidda út við endur­skipu­lagninguna.

Tals­maður Hertz sagði í sam­tali við Reu­ters eftir dóminn að bíla­leigan væri ó­sam­mála niður­stöðunni og væri að í­huga á­frýjun.

Lög­menn Hertz töldu dóminn fara á svig við lög um gjald­þrota­skipti í Banda­ríkjunum þar sem nægi að greiða höfuð­stól skuldar en kröfu­hafar megi ekki vænta þess að vextir haldi á­fram að safnast eftir að sótt er um greiðslu­stöðvun.

Dómurinn sagði málið þó ó­líkt öðrum málum að því leyti að það var „nægt fé til skiptanna.“