Bandarísk hlutabréf og aðrar áhættusamar eignir hækkuðu verulega í kjölfar þess Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna í vikunni.
Hins vegar hafa skuldabréfafjárfestar verið að stíga varlega til jarðar sem Financial Times segir að ætti að vera vísbending um að sæluvíman verði ekki endalaus, sér í lagi ef efnahagsaðgerðir Trumps verða verðbólguvaldandi.
„Ætli sykurvíma sé ekki besta leiðin til að útskýra upplifun okkar,“ segir Tina Fordham, stofnandi ráðgjafarfyrirtækisins Fordham Global Foresight sem veitir fjárfestum ráðgjöf í tengslum við pólitískar sveiflur vestanhafs.
Fordham segir að þrátt fyrir að sigur Trumps sé að hafa jákvæð áhrif á verðbréf sé staðan ekki sú sama núna og árið 2016.
„Við erum í allt öðru efnahagslegu umhverfi en þá og kosningaloforð Trump eru verðbólguvaldandi. Ég er sannfærð um að þær muni á endanum skerast á við vaxtalækkunarferli Seðlabankans,“ segir Fordham.
S&P 500 úrvalsvísitalan hækkaði um 2,5% á miðvikudaginn sem er mesta eins dags hækkun eftir kjördag í sögunni. Nasdaq vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, hækkaði um 3%.
Samkvæmt FT eru fjárfestar alltaf meðvitaðir um að markaðir geti sveiflast mikið eftir forsetakosningar en nú eru meiri líkur en áður á snöggum viðsnúningi vegna undirliggjandi verðbólguþrýstings.
Hagfræðingar hafa varað við því að bæði skattalækkanir, háir tollar og stórfelldar brottvísanir muni ýta undir verðbólguna.
Þessi ótti var sýnilegur á skuldabréfamarkaði á miðvikudaginn er ávöxtunarkrafa bandarískra ríkisskuldabréfa til tíu ára hækkaði snögglega um 15 punkta og fór upp í 4,44% sem er það hæsta síðan í júlímánuði.
Ávöxtunarkrafa skuldabréfa til þrjátíu ára rauk einnig upp 17 punkta og fór upp í 4,62% en þegar krafan á skuldabréfi hækkar lækkar virði bréfanna.
Skuldabréfafjárfestar sem FT ræddi við segja að þetta sýni skýrmerkilega verðbólguvæntingar í forsetatíð Trump sem gætu haft áhrif á vaxtalækkunarferlið.
Robert Tipp, fjárfestingastjóri skuldabréfa hjá PGIM, segir í samtali við FT að hann hafi þó ekki miklar áhyggjur af markaðinum til lengri tíma og það sé ómögulegt að Bandaríkin lendi í því sama og Bretland eftir að Liz Truss, þáverandi forsætisráðherra, ákvað að auka lántöku breska ríkisins til muna árið 2022.
„Við erum enn á skuldabréfamarkaði þar sem það eru fleiri kaupendur en útgefendur,“ segir Tipp.
Það sem skuldabréfafjárfestar óttast mest er þó alltaf að einn flokkur sé með bæði framkvæmdarvaldið og báðar þingdeildir í Bandaríkjunum en þá er hægt að auka útgjöld ríkisins til muna án mikilla vandkvæða.