Virði breskra ríkis­skulda­bréfa til þrjátíu ára, svo­kölluð gilt, hefur ekki hækkað meira á einni viku síðan í júlí í fyrra sam­hliða því að FTSE 100 úr­vals­vísi­talan er að ná met­hæðum í dag.

Sam­kvæmt Financial Times er hreyfingin að eiga sér stað vegna veikra efna­hags­gagna sem drógu pundið niður og ýttu undir væntingar um að Eng­lands­banki myndi lækka vexti hraðar til að örva hag­vöxt.

Efna­hags­tölur sem sýndu óvæntan sam­drátt í smásölu í desember ýttu undir verðhækkun á skulda­bréfa­markaði í morgun en gögnin benda til þess að sam­drátturinn í Bret­landi sé meiri en spár gerðu ráð fyrir.

Ávöxtunar­krafa 10 ára ríkis­skulda­bréfa lækkaði um 0,05 pró­sentu­stig í morgun og stóð í 4,64 pró­sentum, sem gerir saman­lagða lækkun vikunnar 0,2 pró­sentu­stig.

Ávöxtunar­kröfur hreyfast öfugt við verð skulda­bréfa en er virði bréfanna hækkar lækkar krafan.

Áður en gögn um dræma smásölu birtust höfðu efnahagstölur sýnt fram á dræma landsframleiðslu í nóvember og minni verðbólgu en spáð var í desember.

FTSE 100-vísi­talan hefur hækkað um 1,2 pró­sent í morgun og fór fram úr fyrra meti sínu frá maí um há­degis­bilið.

Sam­kvæmt FT má rekja þetta til veikara punds, sem hjálpar fyrir­tækjum í vísitölunni sem afla tekna í Bandaríkja­dölum.

„Betri fregnir af verðbólgumælingum hafa gert ríkis­skulda­bréf aftur að öruggu at­hvarfi sem markaðurinn finnur sig nú þurfa,“ sagði Gor­don Shann­on, sjóð­stjóri hjá Twen­ty­Four Asset Mana­gement.

Shannon bætti við að vaxandi væntingar um vaxtalækkanir hafi gert það „auðveldara fyrir er­lenda fjár­festa að snúa aftur á markaðinn.“

Ávöxtun tveggja ára skulda­bréfa lækkaði einnig um 0,04 pró­sentu­stig á föstu­dag og stóð í 4,34 pró­sentum þegar þetta er skrifað sem gerir saman­lagða lækkun vikunnar 0,19 pró­sentu­stig.

Fjár­festar búast nú við að Eng­lands­banki lækki vexti tvisvar um 0,25 pró­sentu­stig á þessu ári, og líkurnar á þriðju lækkuninni hafa aukist, sam­kvæmt upp­lýsingum af af­leiðu­markaði.

Þrátt fyrir hækkun á skulda­bréfa­verði eru ávöxtunar­kröfur 10 ára skulda­bréfa enn veru­lega hærri en 3,75 pró­sentu­stigin, sem þau voru í septem­ber áður en verð­fall hófst vegna bandarískra ríkis­skulda­bréfa og ótta við stöðnun með verðbólgu.

Þrengri fjár­hags­rammi ríkis­stjórnarinnar

Hækkandi lántöku­kostnaður hefur al­var­lega tak­markað svigrúm Rachel Ree­ves fjár­málaráðherra vegna fjár­hags­reglna um ríkis­fjár­mál Bret­lands.

Þekktir stofnana­fjár­festar á skulda­bréfa­markaði hafa varað við að ríkis­stjórnin gæti neyðst til að hækka skatta eða skera niður út­gjöld til að halda trúverðug­leika á markaði.

Væntingar um vaxtalækkanir fengu aukið vægi í vikunni eftir að einn nefndar­maður í peninga­stefnu­nefnd bankans hélt ræðu þar sem hann benti á að bankinn gæti þurft að lækka vexti fimm eða sex sinnum á næsta ári til að styðja við hag­kerfið.

Alan Taylor, nefndar­maður í peninga­stefnu­nefndinni, varaði við því að nýjustu gögn bendi til „sí­fellt dökkari horfa fyrir árið 2025“ og lagði áherslu á að bankinn þyrfti að grípa til fyrir­byggjandi að­gerða með lægri vöxtum til að styðja við hag­kerfið.

Þó að væntingar um lægri vexti létti á lántöku­kostnaði ríkis­stjórnarinnar gætu þær daufari hag­vaxtar­horfur sem fylgja haft neikvæð áhrif á fjár­laga­spár, ef veik­leikinn reynist viðvarandi.

Sofnun ábyrgra ríkisfjármála (e. Office for Budget Responsibility) mun birta nýjar efna­hags- og fjár­laga­spár sínar 26. mars, en í kjölfarið mun fjár­málaráðherra standa fyrir svörum í breska þinginu.

Áhrif frá bandarískum skulda­bréfum

Bresk ríkis­skulda­bréf hafa einnig notið stuðnings frá bandarískum ríkis­skulda­bréfum, sem hafa hækkað í verði vegna þess að ný gögn sýna minni undir­liggjandi verðbólguþrýsting í bandaríska hag­kerfinu.

Þetta hefur dregið ávöxtunar­kröfu 10 ára bandarískra skulda­bréfa niður um 0,18 pró­sentu­stig í 4,59 pró­sent.