Virði breskra ríkisskuldabréfa til þrjátíu ára, svokölluð gilt, hefur ekki hækkað meira á einni viku síðan í júlí í fyrra samhliða því að FTSE 100 úrvalsvísitalan er að ná methæðum í dag.
Samkvæmt Financial Times er hreyfingin að eiga sér stað vegna veikra efnahagsgagna sem drógu pundið niður og ýttu undir væntingar um að Englandsbanki myndi lækka vexti hraðar til að örva hagvöxt.
Efnahagstölur sem sýndu óvæntan samdrátt í smásölu í desember ýttu undir verðhækkun á skuldabréfamarkaði í morgun en gögnin benda til þess að samdrátturinn í Bretlandi sé meiri en spár gerðu ráð fyrir.
Ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa lækkaði um 0,05 prósentustig í morgun og stóð í 4,64 prósentum, sem gerir samanlagða lækkun vikunnar 0,2 prósentustig.
Ávöxtunarkröfur hreyfast öfugt við verð skuldabréfa en er virði bréfanna hækkar lækkar krafan.
Áður en gögn um dræma smásölu birtust höfðu efnahagstölur sýnt fram á dræma landsframleiðslu í nóvember og minni verðbólgu en spáð var í desember.
FTSE 100-vísitalan hefur hækkað um 1,2 prósent í morgun og fór fram úr fyrra meti sínu frá maí um hádegisbilið.
Samkvæmt FT má rekja þetta til veikara punds, sem hjálpar fyrirtækjum í vísitölunni sem afla tekna í Bandaríkjadölum.
„Betri fregnir af verðbólgumælingum hafa gert ríkisskuldabréf aftur að öruggu athvarfi sem markaðurinn finnur sig nú þurfa,“ sagði Gordon Shannon, sjóðstjóri hjá TwentyFour Asset Management.
Shannon bætti við að vaxandi væntingar um vaxtalækkanir hafi gert það „auðveldara fyrir erlenda fjárfesta að snúa aftur á markaðinn.“
Ávöxtun tveggja ára skuldabréfa lækkaði einnig um 0,04 prósentustig á föstudag og stóð í 4,34 prósentum þegar þetta er skrifað sem gerir samanlagða lækkun vikunnar 0,19 prósentustig.
Fjárfestar búast nú við að Englandsbanki lækki vexti tvisvar um 0,25 prósentustig á þessu ári, og líkurnar á þriðju lækkuninni hafa aukist, samkvæmt upplýsingum af afleiðumarkaði.
Þrátt fyrir hækkun á skuldabréfaverði eru ávöxtunarkröfur 10 ára skuldabréfa enn verulega hærri en 3,75 prósentustigin, sem þau voru í september áður en verðfall hófst vegna bandarískra ríkisskuldabréfa og ótta við stöðnun með verðbólgu.
Þrengri fjárhagsrammi ríkisstjórnarinnar
Hækkandi lántökukostnaður hefur alvarlega takmarkað svigrúm Rachel Reeves fjármálaráðherra vegna fjárhagsreglna um ríkisfjármál Bretlands.
Þekktir stofnanafjárfestar á skuldabréfamarkaði hafa varað við að ríkisstjórnin gæti neyðst til að hækka skatta eða skera niður útgjöld til að halda trúverðugleika á markaði.
Væntingar um vaxtalækkanir fengu aukið vægi í vikunni eftir að einn nefndarmaður í peningastefnunefnd bankans hélt ræðu þar sem hann benti á að bankinn gæti þurft að lækka vexti fimm eða sex sinnum á næsta ári til að styðja við hagkerfið.
Alan Taylor, nefndarmaður í peningastefnunefndinni, varaði við því að nýjustu gögn bendi til „sífellt dökkari horfa fyrir árið 2025“ og lagði áherslu á að bankinn þyrfti að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða með lægri vöxtum til að styðja við hagkerfið.
Þó að væntingar um lægri vexti létti á lántökukostnaði ríkisstjórnarinnar gætu þær daufari hagvaxtarhorfur sem fylgja haft neikvæð áhrif á fjárlagaspár, ef veikleikinn reynist viðvarandi.
Sofnun ábyrgra ríkisfjármála (e. Office for Budget Responsibility) mun birta nýjar efnahags- og fjárlagaspár sínar 26. mars, en í kjölfarið mun fjármálaráðherra standa fyrir svörum í breska þinginu.
Áhrif frá bandarískum skuldabréfum
Bresk ríkisskuldabréf hafa einnig notið stuðnings frá bandarískum ríkisskuldabréfum, sem hafa hækkað í verði vegna þess að ný gögn sýna minni undirliggjandi verðbólguþrýsting í bandaríska hagkerfinu.
Þetta hefur dregið ávöxtunarkröfu 10 ára bandarískra skuldabréfa niður um 0,18 prósentustig í 4,59 prósent.