Fjár­festar í Banda­ríkjunum óttast að 850 milljarða Banda­ríkja­dala skulda­bréfa­út­boð ríkisins, sem var slegið á frest á meðan samið var um skulda­þak ríkisins, muni valda titringi á markaðnum vestan­hafs.

Skulda­bréfa­út­boðið er hafið og mun standa yfir fram í septem­ber á þessu ári en óttast er að magnið af skulda­bréfum muni kæfa markaðinn og hækka kostnað skamm­tíma­lána, sam­kvæmt greiningar­aðilum JP­Morgan.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal búast þó ekki margir við því að markaðurinn fari á hliðina við skulda­bréfa­út­boðið en óttast er að ó­fyrir­sjáan­legar af­leiðingar muni valda ein­hverjum titringi.

Í því sam­hengi horfa fjár­festar til þess þegar peninga­markaðurinn rauk upp árið 2019 á sama tíma og greiðslu­geta var lág.

„Þegar þú losar svona mikla skuld inn á markaðinn veldur það röskun,“ segir Jon Mai­er, for­stöðu­maður fjár­festinga hjá Global X.

Markaðurinn rólegur enn sem komið er

Markaðurinn vestan­hafs hefur verið til­tölu­lega ró­legur upp á síð­kastið. S&P 500 vísi­talan hefur hækkað um 12% það sem af er ári sem byggist að mestu leysti á seigum vinnu­markaði sem heldur á­fram að fjölga störfum á­samt gríðar­legri hækkun tækni­fyrir­tækja á markaði.

Á sama tíma sjá fjárfestar fyrir endann á stýri­vaxta­hækkunum seðla­banka Banda­ríkjanna.

Besta leiðin til að sjá hvort markaðurins óttist að hlutabréf séu á niðurleið er að skoða Cboe Volatility vísitöluna. Vísitalan mælir verð á kaupréttum sem fjárfestar kaupa í til að verja sig fyrir lækkun hluabréfa, en vísitalan er í sögulegri lægð eins og staðan er núna.