Skuldabréfavafningum með útlánum (e. collateralised loan obligations) hefur fjölgað með sögulegum hraða í Evrópu í ár en fjárfestar eru sífellt að sækjast eftir betri ávöxtun.
Bankar í Evrópu gáfu út skuldabréfavafninga fyrir 22,7 milljarða evra á fyrstu fimm mánuðum ársins, samkvæmt gögnum frá Bank of America en Financial Times greinir frá.
Skuldabréfavafningur er fjármálagerningur með það að markmiði að mæta greiðslufallsáhættu sem útlánaaðili stendur frammi fyrir vegna greiðslufalls mótaðila.
Systur-varan vinsæl fyrir hrun
Í raunveruleikanum er þó um að ræða fjölda lána í ruslflokki sem eru pökkuð saman í vafning sem hækkar lánshæfismatið og fjárfestar kaupa svo hlut.
Skuldabréfavafningar með blönduðum eignum og útlánum (e. collateralized debt obligation) voru gríðarlega vinsæl tegund skuldaafleiða í Bandaríkjunum fyrir hrun en nú virðist náskyldi fjármálagerningurinn, CLO, vera að ná festu í Evrópu.
Samkvæmt gögnum Bank of America er útgáfan á Evrópumarkaði, sem er mun minni en Bandaríkjamarkaður, að nálgast met Bandaríkjanna frá 2021 þegar bandarískir bankar gáfu út skuldabréfavafninga með útlánum (CLO) fyrir 39 milljarða evra.
Í aprílmánuði hækkaði Deutsche Bank spá sína fyrir heildarútgáfu á skuldabréfavafningum í Evrópu um 10 milljarða evra og telur greiningardeild bankans að útgáfan verið um 37 milljarðar í ár.
Barclays, Morgan Stanley og Bank of America hafa einnig hækkað spá sína en flestir bankar í Evrópu voru sannfærðir um að það yrði lítill markaður fyrir skuldabréfavafninga í ár.