Á átta árum hafa skuldir á hvern íbúa Reykjavíkurborgar aukist um 76,4% að raunvirði. Árið 2014 námu skuldir á hvern íbúa 530.100 krónum, eða sem nemur 708.643 krónum á verðlagi ársins 2022. Síðan þá hefur borgin hlaðið á sig skuldum en árið 2022 voru skuldir á hvern íbúa komnar upp í tæplega 1,25 milljónir króna.
Svipaða sögu er að segja þegar horft er til hvers starfandi íbúa borgarinnar. Árið 2014 námu skuldir á hvern íbúa höfuðborgarinnar rétt rúmlega 1 milljón króna, sem nemur hátt í 1,4 milljónum króna á verðlagi síðasta árs. Í lok síðasta árs námu skuldir á hvern starfandi Reykvíking hátt í 2,4 milljónum króna. Á átta ára tímabilinu hafa því skuldir á hvern starfandi borgarbúa aukist um 73,8% að raunvirði.
Þess ber þó að geta að skuldir á hvern íbúa eru með svipuðu móti í hinum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Skuldir á hvern íbúa í hinum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins eru lægstar á hvern íbúa í Kópavogi, eða 1,2 milljónir króna, en hæstar í Hafnarfirði, tæplega 1,7 milljónir króna.
Eigið fé A-hluta Reykjavíkurborgar á hvern íbúa hefur dregist saman um tæp 40% að raunvirði frá 2014. Á verðlagi dagsins í dag nam eigið fé borgarinnar 122 milljörðum króna í lok árs 2014, eða rétt um milljón á íbúa, en um síðustu áramót hafði það rýrnað um 30% og var komið niður í 86 milljarða á sama tíma og borgarbúum hafði fjölgað um 15%, og var því komið niður í 617 þúsund krónur á mann.
Nánar er fjallað um fjármál borgarinnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.