Verkamannaflokkurinn neyðist til að fara í „mjög harðan“ niðurskurð er fjármögnunarkostnaður ríkisins eykst með hverjum degi.
Breskar ríkisstofnanir eru byrjaðar að undirbúa sig undir harðar fjárlagaskerðingar þar sem ríkissjóður Bretlands verður að draga verulega úr útgjöldum vegna hækkandi lántökukostnaðar.
Mikill órói hefur verið á skuldabréfamarkaði eftir að Verkamannaflokkurinn greindi frá áformum sínum um metútgáfu skulda á þessu fjárlagaári. Ávöxtunarkrafa breskra ríkisbréfa til 30 ára hefur hækkað gríðarlega á stuttum tíma og þar með lántökukostnaður ríkisins.
Á þriðjudaginn fór krafan upp í 5,21% og hafði fjármögnunarkostnaður ríkisins ekki verið hærri síðan 1998. Krafan stendur í 5,48 þegar þetta er skrifað.
Samkvæmt Financial Times eru starfsmenn ráðuneyta byrjaðir að vara við „virkilega erfiðum ákvörðunum“ framu en sumar ríkisstofnanir eru sagðar eiga erfitt með að standast enn meiri niðurskurð.
„Við erum nú þegar farin að hugsa um hvernig við getum framkvæmt það sem þarf með enn minni fjármunum,“ segir starfsmaður innanríkisráðuneytisins við FT. „Við erum áhyggjufull.“
Útgjöld til innanríkisráðuneytisins og undirstofnana þess drógust saman um 3% í síðustu fjárlögum í haust og því er með öllu óvist hvort hægt sé að skerða enn frekar niður þar.
Breska ríkið greiðir nú þegar 100 milljarða punda í vaxtagreiðslur á hverju ári. Ríkið eyðir þannig um tvöfalt meiru bara í vexti en varnarmál.
Breska pundið veiktist um 1% gagnvart Bandaríkjadal í gær og hefur gengi pundsins gagnvart dal ekki verið lægra í heilt ár.
Samkvæmt Bloomberg fylgir innflæði gjaldeyris gjarnan hækkandi ávöxtunarkröfu en þar sem pundið er að veikjast gæti það beint til þess að fjárfestar séu að losa sig við eignir.
Higher bond yields usually attract currency inflows, but the pound has slumped instead—a sign of broader asset dumping https://t.co/bH2fKYVG7r pic.twitter.com/06PUEWa4Jj
— Bloomberg (@business) January 10, 2025
Sir John Gieve, fyrrum varaseðlabankastjóri Englandsbanka, sagði við Radio 4 í morgun að Rachel Reeves fjármálaráðherra þurfi að íhuga „mjög alvarlegan niðurskurð“ svo að hái lántöku- og vaxtakostnaður éti ekki upp allt fjárhagslegt svigrúm ríkisins.