Verka­manna­flokkurinn neyðist til að fara í „mjög harðan“ niður­skurð er fjár­mögnunar­kostnaður ríkisins eykst með hverjum degi.

Breskar ríkis­stofnanir eru byrjaðar að undir­búa sig undir harðar fjár­laga­skerðingar þar sem ríkis­sjóður Bret­lands verður að draga veru­lega úr út­gjöldum vegna hækkandi lántöku­kostnaðar.

Mikill órói hefur verið á skulda­bréfa­markaði eftir að Verka­manna­flokkurinn greindi frá áformum sínum um metút­gáfu skulda á þessu fjár­lagaári. Ávöxtunar­krafa breskra ríkis­bréfa til 30 ára hefur hækkað gríðar­lega á stuttum tíma og þar með lántöku­kostnaður ríkisins.

Á þriðju­daginn fór krafan upp í 5,21% og hafði fjár­mögnunar­kostnaður ríkisins ekki verið hærri síðan 1998. Krafan stendur í 5,48 þegar þetta er skrifað.

Sam­kvæmt Financial Times eru starfs­menn ráðu­neyta byrjaðir að vara við „virki­lega erfiðum ákvörðunum“ fram­u en sumar ríkis­stofnanir eru sagðar eiga erfitt með að standast enn meiri niður­skurð.

„Við erum nú þegar farin að hugsa um hvernig við getum fram­kvæmt það sem þarf með enn minni fjár­munum,“ segir starfs­maður innan­ríkis­ráðu­neytisins við FT. „Við erum áhyggju­full.“

Út­gjöld til innan­ríkis­ráðu­neytisins og undir­stofnana þess drógust saman um 3% í síðustu fjár­lögum í haust og því er með öllu óvist hvort hægt sé að skerða enn frekar niður þar.

Breska ríkið greiðir nú þegar 100 milljarða punda í vaxta­greiðslur á hverju ári. Ríkið eyðir þannig um tvöfalt meiru bara í vexti en varnar­mál.

Breska pundið veiktist um 1% gagn­vart Bandaríkja­dal í gær og hefur gengi pundsins gagn­vart dal ekki verið lægra í heilt ár.

Sam­kvæmt Bloom­berg fylgir inn­flæði gjald­eyris gjarnan hækkandi ávöxtunar­kröfu en þar sem pundið er að veikjast gæti það beint til þess að fjár­festar séu að losa sig við eignir.

Sir John Gie­ve, fyrrum vara­seðla­banka­stjóri Eng­lands­banka, sagði við Radio 4 í morgun að Rachel Ree­ves fjár­málaráðherra þurfi að íhuga „mjög al­var­legan niður­skurð“ svo að hái lántöku- og vaxta­kostnaður éti ekki upp allt fjár­hags­legt svigrúm ríkisins.