Skúli Skúlason, varaformaður stjórnar Play, keypti hlutabréf í flugfélaginu fyrir 8,6 milljónir króna í gær. Skúli keypti 10 milljónir hluta á genginu 0,8575 krónur í gegnum félagið Fea ehf. sem hann á 100% hlut í. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Fea á eftir kaupin 111.700.903 hluti, eða um 5,9% hlut í Play sem er um 97 milljónir króna að markaðsvirði. Skúli á einnig 26% hlut í Rea ehf., móðurfélagi Airport Associates, sem á 1,8% hlut í Play.
Þetta eru önnur kaup stjórnanda eða stjórnarmanns í hlutabréfum Play á skömmum tíma. Andri Geir Eyjólfsson, framkvæmdarstjóri flugrekstrarsviðs Play, keypti einnig í flugfélaginu á föstudaginn síðasta fyrir eina milljón króna.
Play birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung eftir lokun Kauphallarinnar á fimmtudaginn síðasta. Í uppgjörstilkynningu Play kom m.a. fram að félagið sé að skoða að auka hlutafé „og eftir atvikum sækja fjármögnun í tengslum við nýtt flugrekstrarleyfi sérstaklega“.
Hlutabréfaverð Play féll um 12,8% á föstudaginn og stóð í 0,82 krónum við lok síðustu viku.
Alls hefur gengi hlutabréfa Play fallið um meira en helming frá því að flugfélagið boðaði fyrir tveimur vikum grundvallarbreytingu á viðskiptalíkani sínu og tilkynnti um að rekstrarafkoma félagsins í ár verði líklega verri en á síðasta ári.