Skúli Mogensen og lykilstarfsmenn WOW air eru ekki af baki dottnir og leita nú fjármögnunar upp á tæpa fimm milljarða króna til að endurvekja flugfélagið.

Þetta er meðal þess sem finna má í fjárfestakynningu sem útbúin var fyrir Skúla um nýja flugfélagið en sagt er frá málinu á vef Fréttablaðsins . Í kynningunni er tekið fram að forsvarsmenn félagsins hafi lært sína lexíu og muni einblína á rekstur harðrar lággjaldastefnu líkt og WOW gerði í upphafi.

Sem kunnugt er fór WOW í þrot í liðinni viku en forstjórinn fyrrverandi tjáði sig um aðdraganda falls félagsins í gær . Sagði hann ástæðuna vera tvíþætta. Annars vegar hafi kostnaður við breytingar vegna Airbus A330 breiðþoturnar haft alvarlegar afleiðingar með hækkandi olíuverði.

„Í öðru lagi þá fjarlægðumst við lággjaldastefnuna og fórum að bæta við viðskiptafarrými og fleiri þjónustum sem eiga alls ekki heima í lággjaldamódelinu. Þetta jók flækjustigið enn frekar og undirliggjandi kostnað félagsins.  Þetta reyndist okkur dýrkeypt og eftir á að hyggja hefðum við átt að halda fast í það að vera hreinræktað lággjaldafélag.“ sagði Skúli.

Stefnt er að því að til að byrja með muni félagið vera með fimm Airbus þotur. Fyrstu tólf vikurnar muni það stefna að leiguverkefnum fyrir stórt evrópskt flugfélag en frá miðju sumri fljúga til og frá Keflavík til þrettán áfangastaða í Evrópu og Bandaríkjunum. Fjölgað verði um tvær vélar í flotanum vorið 2020 og þrjár vélar ári síðar.

Skúli og aðrir lykilstarfsmenn stefna að því að eiga 51 prósents hlut en fjárfestar 49 prósent á móti. Hið fyrirhugaða félag vantar 40 milljónir bandaríkjadollara, andvirði 4,8 milljarða íslenskra króna, til að fjármagna reksturinn þar til jákvæð lausafjárstaða næst. Stefnt er að því að það verði á öðrum ársfjórðungi ársins 2020.

Flugrekstrarleyfi muni fást með fyrrgreindum leiguverkefnum og að félagið nái að kaupa helstu eignir sem er að finna í þrotabúi WOW air. Einnig þurfi að ná samningum við leigusala vegna flugvélanna fimm að því segir á vef Fréttablaðsins .