Fasteignafélagið Reginn hefur gengið frá samningum um kaup á fasteignum við Hafnarstræti 17-19, Hafnarstræti 18 og Þingholtsstræti 2-4 í Reykjavík á 5,55 milljarða króna samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
Fasteignirnar eru í eigu tveggja fasteignafélaga Skúla Gunnars Sigfússonar, jafnan kenndur við Subway. Félögin eru Suðurhús ehf. og Staðarfjall ehf., en síðarnefnda félagið er dótturfélag Stjörnunnar, sem jafnframt er rekstraraðili Subway á Íslandi og í eigu Skúla Gunnars.
Heildarfermetrafjöldi fasteignanna er 6.777 en leigutakar eru fimm. Þar af eru Flugleiðahótel stærsti leigutakinn með langtíma leigusamning vegna húsnæðis Reykjavík Konsúlat hótelsins.
Kaupin verða fjármögnuð með handbæru fé og lánsfé. Áætlaðar leigutekjur miðað við fulla útleigu fasteignanna á ársgrundvelli nema um 440 milljónum króna samkvæmt tilkynningunni og áætluð leiguarðsemi er 6,5%. Kauptilboðið er háð fyrirvörum, meðal annars um áreiðanleikakönnun og fráfalli forkaupsréttar. Áætlað er að kaupsamningur um fasteignirnar verði undirritaður í maí 2022.