Sky Lagoon tapaði 8,8 milljónum króna á síðasta ári. Til samanburðar tapaði félagið 60 milljónum árið 2020.

Þá námu rekstrartekjur baðlónsins 1,388,4 milljörðum króna á árinu 2021 en útgjöld 1,399 milljörðum. Laun og launatengd gjöld námu 439 milljónum króna á árinu og fjöldi ársverka var 90 á árinu.

Eigið fé félagsins nam 204 milljónum króna í fyrra að meðtöldu hlutafé félagsins að fjárhæð 273,5 milljónum króna, en eiginfjárhlutfallið var 32,5%.

Óheimilt er að úthluta arði til hluthafa á árinu 2022, að því er kemur fram í ársreikningi. Kanadíska fyrirtækið Pursuit Iceland ehf. á 51% hlut, en Geothermal Lagoon ehf. á 49% hlut.

ÍAV var aðalverktaki við uppbyggingu á baðlóninu sem opnaði 1. maí í fyrra. Áætlaður framkvæmdakostnaður var um 5 milljarðar króna.