Skydance, framleiðslufyrirtæki David Ellison, hefur gengið frá kaupum á National Amusements, sem fer með ráðandi hlut í Paramount-samstæðunni.
Samkvæmt The Wall Street Journal er virði félagsins 28 milljarðar bandaríkjadalir í viðskiptunum en Shari Redstone, sem erfði National Amusements og þar með ráðandi hlut í samstæðunni frá föður sínum, ákvað nýverið að reyna að selja sig úr félaginu.
Skydance mun leggja hinu sameinaða félagi til 8 milljarða bandaríkjadali en samningaviðræður hafa staðið yfir í sex mánuði.
Ákvörðun Redstone um að selja hefur valdið töluverðri ókyrrð innan samstæðunnar en Skydance borgar um 2,4 milljarða dali fyrir hluti hennar en með þeim fylgja 80% atkvæðisréttur í Paramount.
Paramount Global, sem á sjónvarpsstöðvarnar CBS, MTV, Nickelodeon ásamt Paramount kvikmyndaverinu, hefur verið í eigu Redstone-fjölskyldunnar í þrjá áratugi.
Samkvæmt The Wall Street Journal byrjaði Shari að huga að því að breyta hlutum sínum í handbært fé í fyrra en hún er sögð hafa fundið verulega fyrir því fjárhagslega þegar samstæðan ákvað að draga úr arðgreiðslum.
Skömmu síðar ákvað David Ellison, forstjóri Skydance Media og sonur milljarðamæringsins Larry Ellison, að kanna áhuga Shari á mögulegum samruna fyrirtækjanna tveggja.
Markaðsvirði Paramount hefur lækkað um 75% á síðustu fimm árum en sameining félaganna er háð samþykki eftirlitsaðila en stefnt er að því að ganga frá sameiningunni á næstu mánuðum.
Núverandi markaðsvirði hlutar Shari er um 750 milljónir Bandaríkjadala og er hún því vænlega greitt fyrir sinn hlut.