Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, er nýr formaður Viðskiptaráðs Íslands og tekur hann við keflinu af Ara Fenger sem gegnt hefur formennsku ráðsins frá árinu 2020. Andri kveðst spenntur fyrir samstarfinu við stjórnarmenn, starfsfólk og aðildarfélög Viðskiptaráðs. „Innan Viðskiptaráðs má finna fjölda hæfileikaríkra og frambærilegra einstaklinga og ég hlakka til að vinna að góðum verkum við hlið þeirra.“
Andri sat í stjórn Viðskiptaráðs á árunum 2014-2022 en þar sem reglur ráðsins heimila ekki stjórnarmönnum að sitja lengur en átta ár í senn var hann ekki í framboði til endurkjörs árið 2022. Hann segist hafa saknað þess að sitja í stjórn ráðsins. „Ég hugsaði með mér í lok síðasta árs að kannski væri kominn tími til að bjóða ekki einungis fram krafta mína til stjórnarsetu, heldur einnig til að leiða þann öfluga hóp og er þakklátur fyrir traustið sem mér er sýnt með því að fá ekkert mótframboð í formannsembættið,“ segir Andri og hlær. „Mér finnst gaman að vinna að þeim málum sem Viðskiptaráð tekur þátt í og þess vegna togaði það mikið í mig að snúa aftur í stjórnina.“
Sjálfbærni og nýsköpun
Spurður um hvaða áherslur hann sjái helst fyrir sér að hafa til hliðsjónar sem formaður kveðst Andri fyrst og fremst vilja sjá Viðskiptaráð halda áfram að standa fyrir öflugu málefnastarfi. „Megin verkefni ráðsins liggja sem áður fyrir. Sjálfbærnivegferð atvinnulífsins hefur verið mér ofarlega í huga undanfarin ár enda felur hún að mínu mati í sér fjölda tækifæra. Bent hefur verið á að ákveðin „gullhúðun“ hafi átt sér stað við innleiðingu regluverks á vegum Evrópusambandsins (ESB) í íslensk lög tengdu sjálfbærni. Oft er gengið lengra en lágmarkskröfur ESB kveða á um með tilheyrandi kostnaði fyrir íslenskt atvinnulíf. Að því sögðu er íslenskt atvinnulíf samt sem áður vel í stakk búið til að vera í fararbroddi í sjálfbærnivegferðinni.“
Andri segir jafnframt mikilvægt að skapa eins góð skilyrði og mögulegt sé svo nýsköpun geti áfram blómstrað hér á landi. „Nýsköpun er gríðarlega mikilvæg og hún á sér ekki einungis stað í nýstofnuðum fyrirtækjum heldur einnig innan veggja rótgróinna fyrirtækja. Við höfum t.d. lagt mikla áherslu á nýsköpun í Ölgerðinni, sem er 111 ára gamalt fyrirtæki.“
Ríkið þarf einnig að hagræða
Raforkumálin eru Andra líkt og mörgum landsmönnum ofarlega í huga enda blasir orkuskortur við að óbreyttu sem vissulega stendur í vegi fyrir því að hægt sé að viðhalda hagvexti til framtíðar. „Raforkuskorturinn sem við stöndum nú frammi fyrir var fyrirsjáanlegur og stendur framtíðaruppbyggingu í átt að aukinni sjálfbærni fyrir þrifum. Það er sorglegt að sjá þann skort á framsýni sem stjórnvöld hafa sýnt, enda mátti það vera öllum ljóst að á endanum myndi þetta koma í bakið á stjórnvöldum og bitna á íbúum landsins.“
Kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði hafa sömuleiðis verið í brennidepli. Andri kveðst í grunninn vera bjartsýnn maður og því vongóður þó viðræðurnar séu komnar á borð ríkissáttasemjara. „Ég hef fulla trú á að Samtök atvinnulífsins og verkalýðsforystan nái saman um farsæla og skynsamlega kjarasamninga sem verði þjóðinni til heilla.“
Hann bendir á að meira þurfi til en skynsamlega kjarasamninga svo stóra markmiðið um vinna bug á þrálátri verðbólgu náist. „Það væri ákveðin ísbrjótur ef það tekst að landa skynsamlegum kjarasamningum því um leið færu aðrar breytur sem hafa áhrif á verðbólgu að taka mið af því. Að sjálfsögðu þarf ríkið einnig að beita aðhaldi og skynsemi í rekstri sínum. Rétt eins og atvinnulífið þarf ríkið að hagræða innan sinna raða. Það gengur ekki til lengdar að ríkissjóður sé rekinn með halla.“
Kjarninn í starfi Viðskiptaráðs er einmitt að veita hinu opinbera aðhald. „Við munum áfram sem hingað til koma fram með tillögur um hvernig sé hægt að bæta ríkisreksturinn. Auk þess berst ráðið fyrir aukinni skilvirkni, minni reglubyrði og að kraftar einkaframtaksins séu nýttir. Hið opinbera má ekki stækka endalaust á kostnað almenna vinnumarkaðarins þegar kemur að eftirspurn eftir vinnuafli, launaskriði og öðru slíku.“
Nánar er rætt við Andra í sérblaði Viðskiptablaðsins um Viðskiptaþing. Hægt er að nálgast viðtalið í heild hér.