Mjög skýr merki eru um kólnun fasteignamarkaðarins eftir mikla spennu á síðustu árum, að því er kemur fram í greiningu Pálmars Gíslasonar.
Fasteignaverð er í hæstu hæðum, bæði mælt út frá greiðslubyrði sem hlutfall af launum, sem og fasteignaverði sem hlutfalli af launum.
„Við erum farin að sjá mjög skýr merki um það að fasteignamarkaðurinn sé að kólna, og það nokkuð hratt. Því tel ég litla innistæðu fyrir hækkun fasteignaverðs á árinu eins og staðan er núna,“ segir Pálmar.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141245.width-1160.png)
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141246.width-1160.png)
Síðastliðin þrjú ár á fasteignamarkaði hafa einkennst af mikilli aukningu fasteigna til sölu, frá þeim lágpunkti sem varð árið 2022 þegar stýrivextir voru þeir lægstu í sögunni.
Í byrjun desember sl. var fjöldi fasteigna til sölu á höfuðborgarsvæðinu rétt undir 2.500, sem er tæplega tvöföldun frá árunum 2018- 2020 og rúmlega sexfalt meiri en þegar lágpunktinum var náð árið 2022.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141249.width-1160.png)
Á sama tíma og fasteignum til sölu fer fjölgandi hefur meðalfjöldi birtingadaga fasteignaauglýsinga á fasteignavefsíðum tvöfaldast á síðustu mánuðum frá langtímameðaltali, farið úr tveimur mánuðum í fjóra mánuði. Sá tími sem þarf til að auglýsa fasteign áður en skrifað er undir kaupsamning hefur þrefaldast á sama tímabili.
„Ég myndi áætla að út frá þessari þróun séu sölukeðjur orðnar mun flóknari en áður sem dregur úr hraða viðskipta,“ segir Pálmar og bætir við að þrátt fyrir fyrrnefndar staðreyndir sé fjöldi fólks að bíða eftir því að komast inn á markaðinn. Lítið þurfi að gerast til að hann fari á flug aftur.
„Þrátt fyrir að ýmsir mælikvarðar og hlutföll bendi til þess að engin innistæða sé fyrir frekari verðhækkunum á markaði að svo stöddu, þá stoppar það ekki fólk að eignast fasteign. Það er fullt af ungu fólki sem langar að eignast fasteign og það mun sætta sig við aukna greiðslubyrði.
Mig grunar að markaðurinn fari hægt af stað til að byrja með, en tel að það muni hafa mikil áhrif á markaðinn um leið og verðtryggðir vextir lækka. Það þarf ekki mikið til þess að fjöldi fólks komist aftur inn á markaðinn.“
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141248.width-1160.png)
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141247.width-1160.png)
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.