Frönsk hluta­bréf hafa ekki lækkað jafn mikið á einni viku síðan í septem­ber 2022 sam­kvæmt Financial Times.

Franska úr­vals­vísi­talan Cac 40 hefur lækkað um meira en 5% síðustu fimm við­skipta­daga en Emmanuel Macron Frakk­lands­for­seti á­kvað að slíta þingi og blása til kosninga síðasta sunnu­dag.

Macron á­kvað að slíta þingi eftir stór­sigur Þjóð­fundarins (RN), stjórn­mála­flokks Marine Le Pen í Evrópu­þing­kosningunum um síðustu helgi. RN fékk 30 þing­sæti á meðan flokkur Macrons, BE, fékk 13 þing­sæti.

Sam­kvæmt FT eru fjár­festar að hafa á­hyggjur af út­gjalda­á­ætlunum Þjóð­fundarins en fjár­mála­ráð­herra Frakk­lands, Bruno Le Maire, sagði ný­verið að franska ríkið myndi lenda í skulda­krísu ef að­gerðir þeirra verði að veru­leika.

Á­vöxtunar­krafa ríkis­skulda­bréfa til tíu ára hefur einnig verið á miklu flugi og rauk úr auk úr 3,03% í 3,38% á mánu­daginn og hefur verið í kringum 3,2% síðan þá.

Munurinn á kröfu franskra skulda­bréfa og þýskra stendur í 0,77% um þessar mundir og hefur ekki verið jafn mikill síðan 2017.

Sam­kvæmt könnunum munu einungis 40 af sitjandi þing­mönnum í stjórn­mála­flokki Macron ná á­fram í seinni um­ferð kosninganna sem fer fram 7. júlí.

Alls sitja 589 þing­menn á franska þinginu og stefnir allt í að bar­áttan verði milli hægri og vinstri flokkanna á meðan miðju­flokkur Macron þurrkast út.

Í síðasta mánuði lækkaði mats­fyrir­tækið Standard&Poors láns­hæfis­mat franska ríkisins vegna stöðugs halla á ríkis­sjóði og gríðar­legrar skulda­aukningar.

Evrópu­ráðið mun síðan lík­legast slá á fingur ríkis­stjórnanna í næstu viku fyrir að hafa ekki fylgt lof­orðum um að draga úr lán­töku.

Frönsk skulda­bréf eru að mestu í eigu er­lendra fjár­festa og eru þeir lík­legri en ella til að losa sig við þau eða kaupa ekki meira þegar það er ó­reiða í stjórn­málum landsins.