Icelandair og Play birtu uppgjör annars ársfjórðungs nú á dögunum. Icelandair skilaði 622 þúsund dala hagnaði á fjórðungnum, eða sem nemur 86 milljónum króna. Til samanburðar hagnaðist félagið um 13,7 milljónir dala á sama ársfjórðungi í fyrra. Samanlagt hefur félagið hins vegar tapað 58,8 milljónum dala á fyrstu sex mánuðum ársins, um átta milljörðum króna, samanborið við 35,5 milljóna dala tap á sama tímabili 2023. Félagið flutti rúmlega 1,2 milljónir farþega á öðrum ársfjórðungi og nam hagnaður félagsins af hverjum farþega 71 krónu.
Play skilaði 8,1 millljón dala tapi, sem nemur ríflega 1,1 milljarði króna, á öðrum ársfjórðungi. Samanlagt tap félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins nemur 29,8 milljónum dala, um fjórum milljörðum króna, samanborið við 22,5 milljóna dala tap á sama tímabili í fyrra. 442 þúsund farþegar flugu með félaginu á fjórðungnum og nemur tap félagsins af hverjum farþega 2.534 krónum. Tekjur félagsins jukust um 7% milli ára, námu 78,3 milljónum dala, og hliðartekjur á farþega jukust um 8%, námu 55 dölum á fjórðungnum.
„Ársfjórðungsuppgjör Play var undir mínum væntingum, en þó í takt við uppgjör margra annarra flugfélaga. Lakari afkoma á fjórðungnum er drifin áfram af offramboði, minnkandi eftirspurn, þrýstingi á fargjöld og ekki síst hækkandi rekstrarkostnaði,“ segir Hans Jørgen Elnæs, norskur greinandi og ráðgjafi á flugmarkaði.
Hann bendir á að rekstrarkostnaður Play hafi aukist verulega milli ára. Þannig hafi einingakostnaður (CASK), bæði með og án eldsneytis, aukist á meðan einingatekjur (TRASK) hafi lækkað á milli ára.
„Þetta er ekki æskileg þróun fyrir lággjaldaflugfélag og Play ætti að einbeita sér að því að ná stjórn á kostnaðargrunninum, sérstaklega rekstrarkostnaði án eldsneytis, þar sem flugfélagið er með tiltölulega sterkar eldsneytisvarnir.“

Mikil gengislækkun
Hlutabréfaverð Icelandair og Play hefur hrunið á árinu. Dagslokagengi bréfa Icelandair náði nýju lágmarki í 0,844 krónum á hlut 12. júlí síðastliðinn, en hlutabréfaverð félagsins hefur lækkað um 35% á árinu og 60% síðastliðna tólf mánuði.
Dagslokagengi bréfa Play, sem skráð eru á First North-markaðinn náði sömuleiðis nýju lágmarki í 1,9 krónum á hlut síðastliðinn 25. júlí. Félagið var skráð á markað í júlí 2021 að undangengnu almennu hlutafjárútboði þar sem félagið sótti 4,3 milljarða króna. Var útboðsgengið á bilinu 18-20 krónur á hlut. Í síðustu fjármögnunarlotu sem lauk formlega í apríl sl. sótti Play 4,6 milljarða króna, en þar var áskriftarverðið 4,5 krónur á hlut.

Leiðrétting: Í grafi með fréttinni í blaðinu var því haldið fram að handbært og bundið fé Icelandair hefði numið 291,2 milljónum dala á öðrum ársfjórðungi. Sú upphæð telur hins vegar einungis handbært fé, en bundið fé Icelandair nam 37 milljónum dala í lok árs 2023. Þá námu markaðsverðbréf félagsins 122 milljónum dala á fjórðungnum. Þetta hefur nú verið leiðrétt.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út í vikunni. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.