Það eru ekki aðeins Íslendingar sem ræða um þessar mundir að slaka á takmörkunum þegar kemur að sölu áfengis en bæði Svíar og Finnar hafa boðað breytingar í átt að meira frelsi.

Í Finnlandi tóku þær breytingar gildi síðastliðinn mánudag að selja mætti áfenga drykki með allt að 8% áfengismagn í matvöruverslunum en áður var miðað við 5,5%.

Ríkisstjórnin í Svíþjóð kynnti þá frumvarp á dögunum sem myndi heimila sölu á framleiðslustað og er ætlað að þau lög taki gildi fyrri hluta næsta árs, en sambærilegar breytingar tóku gildi hér á landi fyrir tveimur árum.

Ríkismiðlar í Svíþjóð og Finnlandi segja að um sé að ræða breytingar sem eigi að færa löggjöfina í löndunum nær Evrópulöndunum en Norðurlöndin, fyrir utan Danmörku, eru einu löndin innan Evrópu þar sem ríkið er með einokun á sölu áfengis.