Greiningarfyrirtækið Akkur segir uppgjör Icelandair fyrir annan ársfjórðung hafa verið undir væntingum. Sömuleiðis séu útgefna horfur flugfélagsins fyrir árið 2025 undir væntingum.
Í greiningu sem birt var opinberlega í morgun segir Akkur að uppgjörið kalli þó ekki á miklar breytingar á afkomuspá sem greiningarfyrirtækið gaf út í síðasta mánuði og Viðskiptablaðið fjallaði ítarlega út. Markgengi (e. target price) Icelandair í afkomuspánni er 2,1 krónur á hlut í lok þessa árs sem er 89% yfir núverandi hlutabréfaverði flugfélagsins.
Icelandair birti árshlutauppgjör eftir lokun Kauphallarinnar á fimmtudaginn. Hlutabréfaverð flugfélagsins féll um 13,7% á föstudaginn og fór úr 1,28 krónum í 1,10 krónu. Gengi Icelandair hefur lækkað um 2% í fyrstu viðskiptum í dag og stendur nú í 1,08 krónum.
Vanmat á áhrifum krónunnar stærsti sökudólgurinn
Akkur hafði spáð því í aðdraganda uppgjörsins að þetta yrði besti annar ársfjórðungur í rekstri hjá Icelandair frá árinu 2016. Rekstrarhagnaður flugfélagsins reyndist þó talsvert minni en Akkur hafði spáð. EBIT-hagnaður var sem dæmi 775 þúsund dala á fjórðungnum samanborið við spá Akkurs upp á 25 milljóna dala EBIT.
„Rekstrarkostnaður var yfir væntingum, þar munaði mest um launakostnað en þar var líklega vanmat á áhrifum vegna sterkari krónu stærsti sökudólgurinn. Eldsneytiskostnaður var hins vegar töluvert undir væntingum og vegur á móti,“ segir í viðbrögðum Akkurs við uppgjörinu.
Icelandair – sem er með stóran hluta af sínum tekjum í erlendri mynt á meðan stór hluti kostnaðar er í íslenskum krónum – benti á að krónan hafi styrkst verulega síðan í fyrra eða um 5% á móti evru og 11% miðað við gengi á Bandaríkjadal þann 14. júlí síðastliðinn.
Icelandair áætlar að styrking krónunnar hafi haft neikvæð áhrif á EBIT-hagnað að fjárhæð 1,5 milljarðar króna á fjórðungnum.
Framtíðaráhrif ONE aukist
Akkur segir þó jákvætt að sjóðstreymi flugfélagsins sé að batna ásamt því að handbært fé frá rekstri hafi aukist milli ára á sama tíma og fjárfestingar dragist saman. Þá sé bókunarstaða fyrir háönn sumarsins betri en á sama tíma auk þess sem fyrirséður samdráttur í sætisframboði til og frá Íslandi gæti stutt við nýtingu og arðsemi á markaðnum.
Greiningarfyrirtækið bendir einnig á að framtíðaráhrif ONE umbreytingarvegferðar Icelandair hafi aukist úr 70 milljónum dala í 90 milljónir dala á ársgrundvelli.
„Þetta styður við mat Akkurs á framtíðarhorfum þó að horfur í náinni framtíð séu vissulega undir væntingum.“
Horfur ársins vonbrigði
Icelandair gaf það út á fimmtudaginn að félagið gerir ráð fyrir að EBIT-hagnaður fyrir árið í heild verði öðru hvoru megin við núllið.
Akkur segir að EBIT-horfur Icelandair fyrir árið séu undir væntingum. Frumskýrsla greiningarfyrirtækisins hafi gert ráð fyrir tæplega 24 milljónum dala í EBIT í ár.
„Horfurnar eru vonbrigði en skiljanlegt í ljósi þess hve mikil áhrif sterkari króna er að setja á reksturinn á sama tíma og bókunarfyrirvari styttist.“
Í fjárfestakynningu Icelandair kemur fram að ef gengi krónunnar gagnvart Bandaríkjadal í ár væri það sama og meðalgengi síðasta árs þá væri EBIT-spá félagsins ríflega 50 milljónum dala hærri, eða um 6 milljörðum króna hærri.