Gengi krónunnar hefur styrkst verulega á undanförnum mánuðum og raungengið er nú með því hæsta sem sést hefur á þessari öld.
Samkvæmt nýrri greiningu Konráðs S. Guðjónssonar, hagfræðings og fyrrverandi efnahagsráðgjafa ríkisstjórnarinnar, er staðan orðin svo skökk að Ísland sé líklega orðið dýrasta land í Evrópu með hærra verðlag og laun en flest önnur þróuð ríki.
Konráð bendir á að krónan hafi styrkst um 5% gagnvart evru og 12% gagnvart Bandaríkjadal síðastliðið ár, ofan á þá hækkun sem þegar hafði átt sér stað í raungengi vegna þrálátrar verðbólgu og meiri launahækkana hér á landi en í viðskiptalöndunum.
Samkvæmt mati Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er gengi krónunnar nú um 15% yfir því sem telst viðunandi til lengri tíma litið.
„Krónan hefur aðeins tvisvar verið álíka sterk eða sterkari á þessari öld,“ skrifar Konráð og bætir við að þetta geti „ekki endað nema á einn veg.“
Hann bendir á að áhrifin af styrkingunni fari þegar að koma fram, meðal annars í versnun rekstrarafkomu flugfélaga og ört vaxandi vöruskiptahalla.
Samt sem áður hafi umræðan um stöðuna verið takmörkuð og viðbrögð stjórnmálamanna og seðlabankans lítil.
Hærri laun og verðlag en í Noregi
Í greiningunni kemur fram að verðlag á Íslandi sé nú um 42% hærra en í Noregi, sem áður þótti með dýrustu löndum heims.
Þetta sé gríðarleg breyting frá því fyrir rúmum áratug, þegar verðlag í Noregi var hærra en hér. Þá séu laun á Íslandi, mæld í evrum, einnig hærri en í nokkru öðru Evrópuríki, að Sviss undanskildu.
Konráð segir að þróunin verði ekki skýrð með aukinni framleiðni og því standi íslensk fyrirtæki í sívaxandi vanda í alþjóðlegri samkeppni. „Það er óhagstæðara en áður fyrir fyrirtæki í hvers kyns alþjóðlegri samkeppni að greiða íslensk laun,“ skrifar hann.
Á sama tíma og styrking krónunnar dregur úr samkeppnishæfni útflutnings eykst kaupgeta almennings í erlendum gjaldmiðli. Það birtist m.a. í því að búist er við viðskiptahalla næstu misseri.
Konráð bendir á að raungengið sé nú um 4% hærra en gert var ráð fyrir í nýlegri spá Seðlabankans.
Ef sú þróun heldur áfram er líklegt að viðskiptahallinn verði meiri en þau 3% af landsframleiðslu sem Seðlabankinn gerir ráð fyrir í ár. Vöruskiptahallinn sé nú þegar orðinn mun meiri en síðustu ár og dregið hafi úr afgangi af þjónustuviðskiptum.
Þrátt fyrir styrka krónu hafa lífeyrissjóðirnir lítið fært fjármagn úr landi að undanförnu sem hefur dregið úr mótvægi við styrkinguna.
„Það kann að skjóta skökku við að lífeyrissjóðir nýti sér ekki sterka krónu í meira mæli um þessar mundir,“ skrifar Konráð.
Hann bendir á að sjóðirnir séu að vísu nálægt reglulegu hámarki erlendra eigna en í heild nemi erlendar eignir aðeins um 40% af heildareignum.
Hann telur einnig að nýleg gjaldeyrisgreiðsla í tengslum við uppgjör ÍL-sjóðs hafi haft áhrif en telur engu að síður óútskýrt hvers vegna lífeyrissjóðir sjái ekki tækifæri til að fjárfesta erlendis í núverandi aðstæðum.
Greiningunni lýkur með skýrri aðvörun. Þó að erfitt sé að tímasetja næstu vendingar telur Konráð líklegt að styrking krónunnar verði ekki varanleg. „Ef ástandið varir lengi getur það haft verulega skaðleg áhrif á útflutningsgreinar og jafnvægi þjóðarbúsins,“ skrifar hann.
Hann varar við hugsunarhætti sem oft kemur fram í aðdraganda óstöðugleika og bóluhegðunar: „This time is different“.
Slíkar fullyrðingar standist sjaldnast skoðun þegar litið er til undirliggjandi hagstærða og viðskiptajafnaðar.