Samkeppni um fjármögnun stærri fyrirtækja hefur harðnað talsvert síðustu misseri. Viðskiptabankarnir eru farnir að bregðast við aukinni skuldabréfaútgáfu og fjármögnun gegnum fagfjárfestasjóði með því að bjóða samkeppnishæfari kjör sjálfir, ef marka má heimildarmenn Viðskiptablaðsins á fjármálamarkaði.

Minni velta á fasteignamarkaði, minni óvissa í atvinnulífinu og batnandi fjármögnunarkjör bankanna eru sagðar meðal ástæðna þess að bankarnir horfi frekar til fyrirtækjalána á ný.

Þegar heimsfaraldurinn skall á árið 2020 og seðlabankinn hríðlækkaði stýrivexti skiluðu þeir sér ekki að öllu leyti til fyrirtækja í gegnum bankakerfið. Bankarnir urðu áhættufælnari í fyrirtækjalánum í ljósi þeirrar óvissu sem faraldurinn skapaði, juku álag sitt á slík lán, og drógu úr lánveitingum. Þess í stað kusu þeir að lána heimilum til fasteignakaupa. Sú þróun virðist hins vegar að einhverju leyti vera að snúast við.

Bankarnir klárlega brugðist við
Á sama tíma herma flestir heimildarmenn blaðsins að bankarnir séu farnir að bregðast við aukinni skuggabanka- og skuldabréfafjármögnun stærri fyrirtækja með samkeppnishæfari kjörum. Þeir hafa þó ekki allir sömu upplifun af því, og telja líklegt að sótt sé harðar að sumum fyrirtækjum en öðrum.

Einn viðmælandi hjá skráðu félagi segist tvímælalaust hafa fundið fyrir breytingu af hálfu bankans, á meðan stjórnandi annars félags kannaðist ekki við slíkt. Flestir viðmælendur höfðu þó haft veður af slíkri þróun.

„Þeir hafa klárlega verið að bregðast við. Þeir hafa náttúrulega verið að skila alveg glæstum uppgjörum og töluverðri aukningu í tekjum af þessum sviðum, þannig að við sækjum auðvitað á þá líka,“ sagði sá fyrrnefndi.

„Þeir eru mjög meðvitaðir um þetta, en vita á sama tíma að það er mjög ólíklegt að félögin séu að fara að kúpla algerlega út bankafjármögnun, enda mikill sveigjanleiki sem fylgir þeim. Ef þú ert kominn með skuldabréf – ég tala nú ekki um ef þau eru skráð – þá er það orðinn meiriháttar vandi að breyta einhverju. Skilmálarnir sem ég er með gagnvart mínum banka eru miklu þægilegri en þeir sem hafa verið á þeim skuldabréfum sem fyrirtæki hafa verið að gefa út nýverið.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .