Á þriðjudaginn í næstu viku fer fram hlutahafafundur hjá Kaldvík þar sem kosið verður um nýjan stjórnarmann í félaginu eftir að Aðalsteinn Ingólfsson, forstjóri Skinneyjar-Þinganess, sagði sig úr stjórn félagsins.
Aðalsteinn sagði sig úr stjórninni eftir ákvörðun þriggja stjórnarmanna þann 20. desember sl. um að stefnt skuli að kaupum á öllu hlutafé í Mossa ehf. og Djúpskel ehf. og 33,3% hlutafjár Búlandstinds ehf.
En Skinney-Þinganes er næststærsti einstaki hluthafi Kaldvíkur með 11,9% hlut í gegnum dótturfélagið Krossey ehf.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu Kaldvíkur mun Austur hf., stærsti hluthafi Kaldvíkur, bjóða Renate Larsen stjórnarsæti í félaginu.
Larsen sat áður í stjórn Mowi, stærsta fiskeldisfyrirtækis í heimi, ásamt því að hafa verið forstjóri norska sjávarútvegsráðsins í sex ár.
Hópur hluthafa með yfir 30% atkvæða hefur tekið sig saman um að bjóða Ingveldi Ástu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Reitum, fram í stjórn félagsins. Hún situr einnig í stjórn Aspar líftryggingarfélags og Odda hf.
Hagnast á kostnað annarra hluthafa
Ákvörðun Aðalsteins um að segja sig úr stjórninni byggði á því að laxeldisfyrirtækið gerði óskuldbindandi samkomulag um kaup upp á 190 milljónir norskra króna, eða um 2,3 milljarða króna, á nokkrum lykileignum í virðiskeðju fiskeldisiðnaðarins á austurströnd Íslands, þar á meðal kaup á öllu hlutafé í Mossa ehf. og Djúpskel ehf. og 33,3% hlutafjár Búlandstinds ehf.
Seljendur eignanna eru Heimsto AS, sem er stærsti hluthafi Austurs ehf., sem á 55,29% í Kaldvík hf. og Ósnes, sem er í eigu Elísar Grétarssonar, framkvæmdastjóra Búlandstinds ehf. og Birgis Guðmundssonar.
Seljandi alls hlutafjár Mossa ehf. er Heimsto.
Seljandi Djúpskeljar og 33% hlutafjár Búlandstinds er Ósval ehf., sem er fyrirtæki í eigu Heimsto að 53,6% leyti og Ósnes að 46,4% leyti.
Í tilkynningu frá Aðalsteini sagði hann að verðið í viðskiptunum væri allt of hátt að hans mati.
Hann gerði einnig athugasemd við að stærsti hluti kaupverðsins sé greiddur með nýútgefnu hlutafé á genginu 27,6 krónur á hlut meðan virtir greiningaraðilar meta að gengi félagsins eigi að vera á bilinu 35-41 á hlut.
„Með þessu tel ég að Heimsto AS, sé að hagnast með óeðlilegum hætti á kostnað annarra hluthafa Kaldvíkur. Um hafi verið að ræða sjálfsafgreiðsluviðskipti, en tveir af þeim þremur stjórnarmönnum sem greiddu atkvæði með viðskiptunum eru forstjóri Heimsto og fjármálastjóri. Ég greiddi atkvæði gegn þessum viðskiptum og einn stjórnarmaður sat hjá. Stjórnarformaður neitaði að upplýsa um afstöðu mína í tilkynningu félagsins til kauphallar,“ sagði Aðalsteinn