Á þriðju­daginn í næstu viku fer fram hluta­hafa­fundur hjá Kald­vík þar sem kosið verður um nýjan stjórnar­mann í félaginu eftir að Aðal­steinn Ingólfs­son, for­stjóri Skinn­eyjar-Þinga­ness, sagði sig úr stjórn félagsins.

Aðal­steinn sagði sig úr stjórninni eftir ákvörðun þriggja stjórnar­manna þann 20. desember sl. um að stefnt skuli að kaupum á öllu hluta­fé í Mossa ehf. og Djúpskel ehf. og 33,3% hluta­fjár Búlands­tinds ehf.

En Skinn­ey-Þinga­nes er næst­stærsti ein­staki hlut­hafi Kald­víkur með 11,9% hlut í gegnum dóttur­félagið Kross­ey ehf.

Sam­kvæmt Kaup­hallar­til­kynningu Kaldvíkur mun Austur hf., stærsti hlut­hafi Kald­víkur, bjóða Renate Larsen stjórnarsæti í félaginu.

Larsen sat áður í stjórn Mowi, stærsta fiskeldisfyrirtækis í heimi, ásamt því að hafa verið forstjóri norska sjávarútvegsráðsins í sex ár.

Hópur hluthafa með yfir 30% atkvæða hefur tekið sig saman um að bjóða Ingveldi Ástu Björnsdóttur, framkvæmdastjóra hjá Reitum, fram í stjórn félagsins. Hún situr einnig í stjórn Aspar líftryggingarfélags og Odda hf.

Hagnast á kostnað annarra hluthafa

Ákvörðun Aðal­steins um að segja sig úr stjórninni byggði á því að lax­eldis­fyrir­tækið gerði óskuld­bindandi sam­komu­lag um kaup upp á 190 milljónir norskra króna, eða um 2,3 milljarða króna, á nokkrum lyki­l­eignum í virðiskeðju fisk­eldisiðnaðarins á austur­strönd Ís­lands, þar á meðal kaup á öllu hluta­fé í Mossa ehf. og Djúpskel ehf. og 33,3% hluta­fjár Búlands­tinds ehf.

Selj­endur eignanna eru Heim­sto AS, sem er stærsti hlut­hafi Austurs ehf., sem á 55,29% í Kald­vík hf. og Ós­nes, sem er í eigu Elísar Grétars­sonar, fram­kvæmda­stjóra Búlands­tinds ehf. og Birgis Guð­munds­sonar.

Seljandi alls hluta­fjár Mossa ehf. er Heim­sto.

Seljandi Djúpskeljar og 33% hluta­fjár Búlands­tinds er Ósval ehf., sem er fyrir­tæki í eigu Heim­sto að 53,6% leyti og Ós­nes að 46,4% leyti.

Í til­kynningu frá Aðal­steini sagði hann að verðið í við­skiptunum væri allt of hátt að hans mati.

Hann gerði einnig at­huga­semd við að stærsti hluti kaup­verðsins sé greiddur með nýút­gefnu hluta­fé á genginu 27,6 krónur á hlut meðan virtir greiningaraðilar meta að gengi félagsins eigi að vera á bilinu 35-41 á hlut.

„Með þessu tel ég að Heim­sto AS, sé að hagnast með óeðli­legum hætti á kostnað annarra hlut­hafa Kald­víkur. Um hafi verið að ræða sjálfs­af­greiðslu­við­skipti, en tveir af þeim þremur stjórnar­mönnum sem greiddu at­kvæði með við­skiptunum eru for­stjóri Heim­sto og fjár­mála­stjóri. Ég greiddi at­kvæði gegn þessum við­skiptum og einn stjórnar­maður sat hjá. Stjórnar­for­maður neitaði að upp­lýsa um af­stöðu mína í til­kynningu félagsins til kaup­hallar,“ sagði Aðal­steinn