Eik fasteignafélag og Klöpp-eignarhaldsfélag ehf. hafa slitið viðræðum um möguleg kaup Eikar fasteignafélags á öllu útgefnu hlutafé í Lambhagavegi 23 ehf. og Laufskálum fasteignafélagi ehf. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Eik.
Fasteignafélagið greindi um miðjan júní síðastliðinn að það hefði skrifað undir helstu skilmála kaupsamnings um allt hlutafé í Lambhagavegi 23 og Laufskálum. Kom þá fram að heildarvirði viðskiptanna gæti numið allt að 4.230 milljónum króna en væri háð fyrirvörum á borð við framkvæmd og niðurstaðna áreiðanleikakannana.
Eik í byrjun þessa mánaðar að viðræður stæðu enn yfir og að samningsaðilar væru að vinna úr athugasemdum sem komu fram í áreiðanleikakönnunum.
„Aðilar meta það svo í ljósi athugasemda í áreiðanleikakönnunum að þeir muni ekki, að óbreyttu, ná endanlegu samkomulagi á grundvelli helstu skilmála sem þeir höfðu orðið ásáttir um,“ segir í tilkynningunni sem Eik sendi frá sér eftir lokun markaða í dag.
Lambhagavegur 23 á 11.944 fermetra gróðurhús í Úlfarsárdal í Reykjavík auk íbúðarhúsnæðis. Laufskálar eiga lóð og fasteign í Lundi í Mosfellsdal, sem er 6.821 fermetrar auk 14.300 fermetra byggingarheimildar. Í atvinnuhúsnæði félaganna fer fram grænmetisrækt Lambhaga sem er einnig í eigu seljanda.