Írski hagfræðingurinn David McWilliams segir Íra hafa sloppið við hugmyndafræðilegar deilur um fyrirtækjaskatta þar sem lítið var um fjármagn eða stórfyrirtæki í landinu.
„Í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi er hugmyndafræðilegur ágreiningur um fyrirtækjaskatta. Vinstri menn segja skattleggið fyrirtækin upp í topp á meðan hægri menn segja látið þau í friði. Við sluppum við þá umræðu því það voru engin stórfyrirtæki á Írlandi,“ segir McWilliams í samtali við Financial Times.
Fyrirtækjaskattur á Írlandi var óbreyttur í 12,5% í tvo áratugi, 2003 til 2023 en Írar voru nýverið þvingaðir af OECD, með stuðningi Íslands, til að hækka skattinn í 15%. OECD lagði á „alheimsfyrirtækjaskatta“ sem eru að lágmarki 15% á fyrirtæki með yfir 750 milljón evra veltu.
Þessi stefna Íra hefur skilað þeim þúsund milljarða afgangi af rekstri ríkissjóðs á meðan íslenska ríkið, sem tvöfaldaði fyrirtækjaskatta hérlendis eftir hrun, verður rekið með halla til ársins 2028.
Afgangur af rekstri ríkissjóðs Írlands í ár er um 9 milljarðar evra sem samsvarar 1.356 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Fjárlagafrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar gerir ráð fyrir halla af rekstri ríkissjóðs Íslands til ársins 2028. Samkvæmt frumvarpinu þarf að taka ný langtímalán fyrir um 165 milljarða á næsta ári. Markaðsaðilar segja það vanmat og að raunútgáfuþörfin fari líklegast yfir 200 milljarða.
Á næstu tveimur árum eru um 460 milljarða króna afborganir á gjalddaga en líklegt er að gjalddagar skuldabréfa og víxla verði endurfjármagnaðir.
„Efnahagur Írlands er byggður þannig upp að það verði ávallt afgangur af rekstri ríkissjóðs,“ segir hagfræðingurinn David McWilliams við FT.
„Stefnan byggist á því að ef þú opnar dyrnar fyrir erlendum stórfyrirtækjum, færð þau til landsins á grundvelli lágra skatta og þau síðan selja vörur til 300 milljón manns í Evrópu þá eru miklar líkur á að þú endir með vænan afgang af fyrirtækjasköttum,“ segir McWilliams og bætir hjákátlega við að þetta sé eitthvað sem írskir hagfræðingar vilji ekki að aðrir Evrópubúar átti sig á.
Í fyrra nam nettó fyrirtækjaskattur á Írlandi eftir endurgreiðslur til fyrirtækja 23,8 milljörðum evra.
Samsvarar það 3.582 milljörðum íslenskra króna en um 80% af þeirri upphæð kom frá erlendum félögum sem sjá hag sínum best borgið á Írlandi.
Til samanburðar eru heildarútgjöld ríkissjóðs Íslands fyrir næsta ár áætluð um 1.490 milljarðar króna.
Stór tæknifyrirtæki hafa séð hag sinn á Írlandi á síðustu árum en þar er nú að finna starfstöðvar Meta, Google, Intel, Facebook, Microsoft, og Dell svo dæmi séu tekin.
Írar föttuðu það greinilega langt á undan Íslendingum að smá biti af risaköku er betri en stór biti af smáköku.
Þessi frétt er hluti af lengri umfjöllun Viðskiptablaðsins um fyrirtækjaskatta á Írlandi og Íslandi. Áskrifendur geta lesið fréttina hér.