Fjár­mála­markaðir eiga að fylgja betri vitund fjöldans en í gær­morgun hljóp múgurinn í allar áttir með báðar hendur á lofti.

Flestir virðast þó hafa náð áttum sínum um há­degis­bilið vestan­hafs og tóku hluta­bréfa­vísi­tölur við sér en hækkanirnar voru þó í engu sam­ræmi við dýfuna sem átti sér stað við opnun markaða.

Nas­daq vísi­talan, þar sem stóru tækni­fyrir­tækin eru þunga­miðjan, féll um 3,4% í við­skiptum gær­dagsins. S&P 500 vísi­talan féll um 3% og öll þrjá­tíu hluta­bréfin í Dow Jones lækkuðu og ýttu vísi­tölunni niður um yfir þúsund stig.

Fjár­mála­markaðir eiga að fylgja betri vitund fjöldans en í gær­morgun hljóp múgurinn í allar áttir með báðar hendur á lofti.

Flestir virðast þó hafa náð áttum sínum um há­degis­bilið vestan­hafs og tóku hluta­bréfa­vísi­tölur við sér en hækkanirnar voru þó í engu sam­ræmi við dýfuna sem átti sér stað við opnun markaða.

Nas­daq vísi­talan, þar sem stóru tækni­fyrir­tækin eru þunga­miðjan, féll um 3,4% í við­skiptum gær­dagsins. S&P 500 vísi­talan féll um 3% og öll þrjá­tíu hluta­bréfin í Dow Jones lækkuðu og ýttu vísi­tölunni niður um yfir þúsund stig.

VIX-vísi­talan, sem mælir vænt flökt S&P 500 vísi­tölunnar sam­kvæmt verð­lagningu á val­réttum tengdum henni og gefur vís­bendingu um á­hættu­fælni fjár­festa, fór í 65 stig um stund í gær. Til saman­burðar stóð hún yfir 80 stig er Co­vid-far­aldurinn náði há­marki haustið 2020.

Hæsta gildi hennar var um 89 stig þegar efna­hags­hrunið skók heiminn árið 2008. Líkt og fyrr segir náðu fjár­festar áttum sínum þegar leið á daginn í gær og lokaði VIX-vísi­talan í kringum 38 stig í gær, sem ætti að gefa flestum hugar­ró um stund.

Svika­logn hefur vissu­lega verið á al­þjóða­mörkuðum frekar lengi og hafa mörg bjarn­dýr varað við því á síðustu mánuðum að bola­markaður sam­hliða háum vöxtum og verð­bólgu væri ó­sjálf­bært fyrir­bæri.

Það ber þó að hafa í huga að Ís­land hefur verið undan­skilið þessari þróun þar sem stöðug lægð virðist vera yfir landinu og öll rigningar­ský legið yfir Laugar­vegi 182.

En hvað gerðist í gær?

Það eru bæði flóknar og ein­faldar skýringar á upp­námi gær­dagsins. Ein­falda skýringin er sú að þegar sumir selja byrja aðrir að selja.

Hins vegar má rekja fyrstu á­hættu­merkin um von­brigði fjár­festa til mið­viku­dagsins er Jerome Powell, seðla­banka­stjóri Banda­ríkjanna, á­kvað að halda stýri­vöxtum ó­breyttum.

Miðað við peninga­markaði, lækkandi verð á vaxta­skipta­samningum og hreyfingar á skulda­bréfa­mörkuðum var þó nokkuð magn af fjár­festum sem bjuggust við að vextir yrðu lækkaðir um miðja síðustu viku eða alla­vega að Seðla­bankinn myndi gefa því gaum í fram­sýnni leið­sögn sinni að efna­hagurinn væri að kólna.

Á­hyggjur fjár­festa um að rof væri milli greiningar seðla­bankans og þeirra eigin raun­gerðust síðan er at­vinnu­leysis­tölur í Banda­ríkjunum birtust á föstu­daginn.

At­vinnu­leysi í Banda­ríkjunum mældist 4,3% í júlí og hefur hlut­fallið ekki verið hærra síðan í októ­ber 2021. Frétta­veitur, sem þó nokkrir er­lendir miðlar og nær allir ís­lenskir miðlar öpuðu eftir, sögðu að þetta væri á­stæða þess að sölu­þrýstingur hefði myndast á mörkuðum í gær.

Út­flutningur er Japönum vissu­lega mikil­vægur en atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum valda því að hluta­bréfa­markaðir í Asíu taka dýfu.

Fjár­festar þurfa einnig að hafa í huga að vinnu­markaðs­tölurnar í Banda­ríkjunum voru ekki jafn slæmar og fyrir­sagnirnar gáfu til kynna.

Matt­hew Klein hjá The Overs­hoot benti rétti­lega á þetta í gær sem olli því að Financial Times hvatti á­skrif­endur sína til að gerast á­skrif­endur hans því að þeirra sögn „sé það besta leiðin til að skilja banda­rískan efna­hag.“

Í fjár­festa­bréfi sínu segir Klein að flestir séu að lesa at­vinnu­leysis­tölurnar vit­laust.

Hann bendir á það að hlut­fall þeirra sem er „varan­lega“ án vinnu hefur ekkert breyst yfir allt árið.

Nær allar breytingar síðustu mánuði á at­vinnu­leysis­tölum Banda­ríkjanna er menntað fólk sem hefur misst vinnuna en mun finna vinnu innan skamms eða fólk sem á­kvað sjálf­viljugt að fara annað.

Banda­rískur efna­hagur bætti við 114 þúsund nýjum störfum við í júlí­mánuði en til saman­burðar voru ný störf einungis 108 þúsund í aprílmánuði. Vinnumarkaðstölur aprílmánaðar ollu ekki uppnámi.

Hag­vöxtur í BNA var 2,8% á öðrum árs­fjórðungi, GDPNow hjá At­lanta býst við 2,5% hag­vexti í BNA á þriðja árs­fjórðungi. Það er að hægjast á neyslu vestan­hafs en neyt­endur eru í á­gætri stöðu heilt yfir og allt tal um kreppu á sér litla stoð enn sem komið er.

Van­skil eru þó að aukast og skal enginn gera lítið úr þeim sam­drætti sem er í raun yfir­vofandi ef Seðla­bankinn bregst ekki við fyrir árs­lok.

At­vinnu­leysis­tölur hafa vissu­lega á­hrif á fjár­festa en undir engum kring­um­stæðum valda þær því að sölu­þrýstingur myndist á asískum mörkuðum líkt og allir sáu í gær.

Vissu­lega voru vinnu­markaðs­tölur apríl­mánaðar vestan­hafs endur­skoðaðar seinna meir og færðar niður en það verður að spyrja af hverju þær ollu ekki sölu­þrýstingi í Asíu líkt og nú?

Veðköll og vaxtamunarviðskipti

Sam­hliða því að banda­ríski seðla­bankinn á­kvað að halda vöxtum ó­breyttum á­kvað seðla­banki Japans að hækka vexti um 25 punkta. Í fundar­gerð peninga­stefnu­nefndar japanska seðla­bankans frá því í júní­mánuði, sem birtist í gær, segir að tveir af níu með­limum bankans vildu hækka vexti strax í júní.

Þessar upp­lýsingar höfðu engin á­hrif á hreyfingar gær­dagsins en gefa samt inn­sýn inn í það að peninga­stefnu­nefndin vissi í byrjun sumars að það þyrfti að grípa til að­gerða til að koma í veg fyrir veikingu japanska jensins sem væri að hafa nei­kvæð á­hrif á verð­bólguna.

Á­kvörðun nefndarinnar um að hækka vexti með það fyrir augum að styrkja jenið kom þó mörgum að ó­vörum, sér í lagi banda­rískum vogunar­sjóðum sem höfðu verið að skuld­setja sig í jenum.

Ein vin­sælustu við­skipti ársins hjá stórum vogunar­sjóðum vestan­hafs í ár voru nefni­lega vaxta­munar­við­skipti (e. carry tra­de) í japönskum jenum.

Svo virðist vera að margir vogunar­sjóðir og fag­fjár­festar tóku stór lán í jenum meðan stýri­vextir í Japan voru í 0% til þess eins að breyta þeim fjár­munum yfir í Banda­ríkja­dal á hag­stæðu gengi og síðan til að fjár­festa í t.d. tækni­risanum vestan­hafs eða jafn­vel bara til þess að kaupa hluta­bréf í Japan og á Asíumörkuðum.

Þegar japanski seðla­bankinn hækkaði vexti og jenið styrktist fór verð­bilið í vaxta­muna­við­skiptunum.

Sam­kvæmt markaðssér­fræðingum vestan­hafs eru veð­köll um allt í Banda­ríkjunum um þessar mundir í tengslum við vaxta­muna­við­skiptin.

Hafa verður í huga að hvorki at­vinnu­leysis­tölurnar á föstu­daginn né vaxta­hækkun japanska seðla­bankans til að styrkja jenið eru þannig viðburðir að þeir ættu að valda því upp­námi sem átti sér stað í gær.

Tímavél til ársins 1987?

Fjöl­miðlar vestana­hafs hafa verið að reyna ná utan um upp­nám gær­dagsins og segja greinin­garðilar og aðrir sér­fræðingar að þetta minni helst á gengis­hrunið í októ­ber 1987, gjald­þrot Long Term Capi­tal Mana­gement árið 1998 eða efna­hags­hrunið árið 2008.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal var gengis­hrun gær­dagsins eins og mildari út­gáfa af Svarta mánu­deginum 1987 og í engu sam­ræmi við hin tvo „hrunin.“

Á Svarta mánu­deginum árið 1987 féll S&P 500 vísi­talan um 20% á einum við­skipta­degi. Vísi­talan hafði hækkað um 39% frá árs­byrjun til ágúst með til­heyrandi á­vöxtun fjár­festa. Mikil gírun, veð­köll og illa for­rituð sjálf­virk við­skipti köstuðu olíu á eldinn.

Banda­ríski Seðla­bankinn steig inn í og skóflaði peningum í lána­stofnanir til að koma í veg fyrir gjald­þrot og markaðurinn var ekki lengi að jafna sig.

Gengis­hrunið árið 1987 var að mestu leyti bundið við markaði líkt og nú, enn sem komið er.

Það sem er keimlíkt við árið 1987 er að fjár­festar voru sann­færðir um að svika­logn væri á mörkuðum og voru til­búnir að taka í gikkinn til að inn­leysa ó­vænta á­vöxtun ársins þar sem flestir spáðu mun minni upp­sveiflu í byrjun árs.