Fjármálamarkaðir eiga að fylgja betri vitund fjöldans en í gærmorgun hljóp múgurinn í allar áttir með báðar hendur á lofti.
Flestir virðast þó hafa náð áttum sínum um hádegisbilið vestanhafs og tóku hlutabréfavísitölur við sér en hækkanirnar voru þó í engu samræmi við dýfuna sem átti sér stað við opnun markaða.
Nasdaq vísitalan, þar sem stóru tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, féll um 3,4% í viðskiptum gærdagsins. S&P 500 vísitalan féll um 3% og öll þrjátíu hlutabréfin í Dow Jones lækkuðu og ýttu vísitölunni niður um yfir þúsund stig.
Fjármálamarkaðir eiga að fylgja betri vitund fjöldans en í gærmorgun hljóp múgurinn í allar áttir með báðar hendur á lofti.
Flestir virðast þó hafa náð áttum sínum um hádegisbilið vestanhafs og tóku hlutabréfavísitölur við sér en hækkanirnar voru þó í engu samræmi við dýfuna sem átti sér stað við opnun markaða.
Nasdaq vísitalan, þar sem stóru tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, féll um 3,4% í viðskiptum gærdagsins. S&P 500 vísitalan féll um 3% og öll þrjátíu hlutabréfin í Dow Jones lækkuðu og ýttu vísitölunni niður um yfir þúsund stig.
VIX-vísitalan, sem mælir vænt flökt S&P 500 vísitölunnar samkvæmt verðlagningu á valréttum tengdum henni og gefur vísbendingu um áhættufælni fjárfesta, fór í 65 stig um stund í gær. Til samanburðar stóð hún yfir 80 stig er Covid-faraldurinn náði hámarki haustið 2020.
Hæsta gildi hennar var um 89 stig þegar efnahagshrunið skók heiminn árið 2008. Líkt og fyrr segir náðu fjárfestar áttum sínum þegar leið á daginn í gær og lokaði VIX-vísitalan í kringum 38 stig í gær, sem ætti að gefa flestum hugarró um stund.
Svikalogn hefur vissulega verið á alþjóðamörkuðum frekar lengi og hafa mörg bjarndýr varað við því á síðustu mánuðum að bolamarkaður samhliða háum vöxtum og verðbólgu væri ósjálfbært fyrirbæri.
Það ber þó að hafa í huga að Ísland hefur verið undanskilið þessari þróun þar sem stöðug lægð virðist vera yfir landinu og öll rigningarský legið yfir Laugarvegi 182.
En hvað gerðist í gær?
Það eru bæði flóknar og einfaldar skýringar á uppnámi gærdagsins. Einfalda skýringin er sú að þegar sumir selja byrja aðrir að selja.
Hins vegar má rekja fyrstu áhættumerkin um vonbrigði fjárfesta til miðvikudagsins er Jerome Powell, seðlabankastjóri Bandaríkjanna, ákvað að halda stýrivöxtum óbreyttum.
Miðað við peningamarkaði, lækkandi verð á vaxtaskiptasamningum og hreyfingar á skuldabréfamörkuðum var þó nokkuð magn af fjárfestum sem bjuggust við að vextir yrðu lækkaðir um miðja síðustu viku eða allavega að Seðlabankinn myndi gefa því gaum í framsýnni leiðsögn sinni að efnahagurinn væri að kólna.
Áhyggjur fjárfesta um að rof væri milli greiningar seðlabankans og þeirra eigin raungerðust síðan er atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum birtust á föstudaginn.
Atvinnuleysi í Bandaríkjunum mældist 4,3% í júlí og hefur hlutfallið ekki verið hærra síðan í október 2021. Fréttaveitur, sem þó nokkrir erlendir miðlar og nær allir íslenskir miðlar öpuðu eftir, sögðu að þetta væri ástæða þess að söluþrýstingur hefði myndast á mörkuðum í gær.
Útflutningur er Japönum vissulega mikilvægur en atvinnuleysistölur í Bandaríkjunum valda því að hlutabréfamarkaðir í Asíu taka dýfu.
Fjárfestar þurfa einnig að hafa í huga að vinnumarkaðstölurnar í Bandaríkjunum voru ekki jafn slæmar og fyrirsagnirnar gáfu til kynna.
Matthew Klein hjá The Overshoot benti réttilega á þetta í gær sem olli því að Financial Times hvatti áskrifendur sína til að gerast áskrifendur hans því að þeirra sögn „sé það besta leiðin til að skilja bandarískan efnahag.“
Í fjárfestabréfi sínu segir Klein að flestir séu að lesa atvinnuleysistölurnar vitlaust.
Hann bendir á það að hlutfall þeirra sem er „varanlega“ án vinnu hefur ekkert breyst yfir allt árið.
Nær allar breytingar síðustu mánuði á atvinnuleysistölum Bandaríkjanna er menntað fólk sem hefur misst vinnuna en mun finna vinnu innan skamms eða fólk sem ákvað sjálfviljugt að fara annað.
Bandarískur efnahagur bætti við 114 þúsund nýjum störfum við í júlímánuði en til samanburðar voru ný störf einungis 108 þúsund í aprílmánuði. Vinnumarkaðstölur aprílmánaðar ollu ekki uppnámi.
Hagvöxtur í BNA var 2,8% á öðrum ársfjórðungi, GDPNow hjá Atlanta býst við 2,5% hagvexti í BNA á þriðja ársfjórðungi. Það er að hægjast á neyslu vestanhafs en neytendur eru í ágætri stöðu heilt yfir og allt tal um kreppu á sér litla stoð enn sem komið er.
Vanskil eru þó að aukast og skal enginn gera lítið úr þeim samdrætti sem er í raun yfirvofandi ef Seðlabankinn bregst ekki við fyrir árslok.
Atvinnuleysistölur hafa vissulega áhrif á fjárfesta en undir engum kringumstæðum valda þær því að söluþrýstingur myndist á asískum mörkuðum líkt og allir sáu í gær.
Vissulega voru vinnumarkaðstölur aprílmánaðar vestanhafs endurskoðaðar seinna meir og færðar niður en það verður að spyrja af hverju þær ollu ekki söluþrýstingi í Asíu líkt og nú?
Veðköll og vaxtamunarviðskipti
Samhliða því að bandaríski seðlabankinn ákvað að halda vöxtum óbreyttum ákvað seðlabanki Japans að hækka vexti um 25 punkta. Í fundargerð peningastefnunefndar japanska seðlabankans frá því í júnímánuði, sem birtist í gær, segir að tveir af níu meðlimum bankans vildu hækka vexti strax í júní.
Þessar upplýsingar höfðu engin áhrif á hreyfingar gærdagsins en gefa samt innsýn inn í það að peningastefnunefndin vissi í byrjun sumars að það þyrfti að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir veikingu japanska jensins sem væri að hafa neikvæð áhrif á verðbólguna.
Ákvörðun nefndarinnar um að hækka vexti með það fyrir augum að styrkja jenið kom þó mörgum að óvörum, sér í lagi bandarískum vogunarsjóðum sem höfðu verið að skuldsetja sig í jenum.
Ein vinsælustu viðskipti ársins hjá stórum vogunarsjóðum vestanhafs í ár voru nefnilega vaxtamunarviðskipti (e. carry trade) í japönskum jenum.
Svo virðist vera að margir vogunarsjóðir og fagfjárfestar tóku stór lán í jenum meðan stýrivextir í Japan voru í 0% til þess eins að breyta þeim fjármunum yfir í Bandaríkjadal á hagstæðu gengi og síðan til að fjárfesta í t.d. tæknirisanum vestanhafs eða jafnvel bara til þess að kaupa hlutabréf í Japan og á Asíumörkuðum.
Þegar japanski seðlabankinn hækkaði vexti og jenið styrktist fór verðbilið í vaxtamunaviðskiptunum.
Samkvæmt markaðssérfræðingum vestanhafs eru veðköll um allt í Bandaríkjunum um þessar mundir í tengslum við vaxtamunaviðskiptin.
Hafa verður í huga að hvorki atvinnuleysistölurnar á föstudaginn né vaxtahækkun japanska seðlabankans til að styrkja jenið eru þannig viðburðir að þeir ættu að valda því uppnámi sem átti sér stað í gær.
Tímavél til ársins 1987?
Fjölmiðlar vestanahafs hafa verið að reyna ná utan um uppnám gærdagsins og segja greiningarðilar og aðrir sérfræðingar að þetta minni helst á gengishrunið í október 1987, gjaldþrot Long Term Capital Management árið 1998 eða efnahagshrunið árið 2008.
Samkvæmt The Wall Street Journal var gengishrun gærdagsins eins og mildari útgáfa af Svarta mánudeginum 1987 og í engu samræmi við hin tvo „hrunin.“
Á Svarta mánudeginum árið 1987 féll S&P 500 vísitalan um 20% á einum viðskiptadegi. Vísitalan hafði hækkað um 39% frá ársbyrjun til ágúst með tilheyrandi ávöxtun fjárfesta. Mikil gírun, veðköll og illa forrituð sjálfvirk viðskipti köstuðu olíu á eldinn.
Bandaríski Seðlabankinn steig inn í og skóflaði peningum í lánastofnanir til að koma í veg fyrir gjaldþrot og markaðurinn var ekki lengi að jafna sig.
Gengishrunið árið 1987 var að mestu leyti bundið við markaði líkt og nú, enn sem komið er.
Það sem er keimlíkt við árið 1987 er að fjárfestar voru sannfærðir um að svikalogn væri á mörkuðum og voru tilbúnir að taka í gikkinn til að innleysa óvænta ávöxtun ársins þar sem flestir spáðu mun minni uppsveiflu í byrjun árs.