Smáríkið hefur verið ákært fyrir netverslun með áfengi. Þetta staðfestir Heiðar Ásberg Atlason, lögmaður Smáríkisins.
Ákæran á hendur Smáríkinu er dagsett 16. júní en var birt í gær. Hún er gefin út af Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er nánast einsdæmi að lögreglustjórar gefi út ákærur enda almennt ekki talið á þeirra verksviði.
Viðskiptablaðið greindi frá því á miðvikudaginn að ákærur yrðu gefnar út á hendur forsvarsmönnum þeirra fyrirtækja sem starfrækja netverslun með áfengi.
Sviðstjóri ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, Hildur Sunna Pálmadóttir, sagði í samtali við Ríkisútvarpið í gær, fimmtudag, að engin ákvörðun hefði verið tekin um hvort ákæra yrði gefin út á hendur fyrirtækjum sem reka netverslun með áfengi.
Miðað við svör Hildar Sunnu á RÚV í gær vaknar spurning hvort ákærusviðið hafi ekki haft vitneskju um að lögreglustjórinn væri að gefa út ákæru á hendur Smáríkinu.
Um fimm ár eru liðin frá því ÁTVR kærði netsölu með áfengi til lögreglu og hefur rannsóknin staðið síðan.