Framtakssjóðurinn Horn IV, sem er í rekstri Landsbréfa, gekk frá kaupum á 22% hlut í fyrirtækinu S4S ehf. fyrir um ári síðan. Í kjölfarið tilkynnti S4S-samstæðan að það ætli sér skráningu á markað.
„Við sögðum í fyrra að við stefndum á skráningu innan fárra ára. Við erum vinna samkvæmt þriggja ára áætlun og stefnum ótrauðir áfram á skráningu á First-North markaðinn innan þess tíma“ segir Pétur Þór Halldórsson forstjóri S4S.
Fyrir kaup Horns IV átti Pétur 40% hlut í félaginu og Bjarni Ármannsson fjárfestir jafn stóran hlut í gegnum félag sitt Sjávarsýn. Þá áttu framkvæmdastjórinn Hermann Helgason og sölustjórinn Georg Kristjánsson hvor um sig 10% hlut. Eftir kaup Horns IV eiga Pétur og Bjarni 31,2% hlut hvor um sig og Hermann og Georg 7,8% hlut.
„Við erum bjartsýn, salan hefur verið góð en kostnaður hefur hækkað mikið. Þar spilar mest inn í hækkandi launakostnaður, erlendar hækkanir á vörum og leigusamningar hjá félaginu sem eru allir vísitölutengdir. Við erum hins vegar að vinna í nokkrum tækifærum, bæði í innri og ytri vexti og skalanleiki okkar er töluverður“ bætir Pétur við.
Horfa til næsta árs
Lífeyrissjóðirnir Festa og Birta keyptu í mars 2021 14,4% hlut í Samkaupum fyrir ríflega 1,3 milljarða króna. Greindi Viðskiptablaðið þá frá því að það væri vilji lífeyrissjóðanna að skrá Samkaup á First North markaðinn.
„Staðan er í raun óbreytt frá því hluthafasamkomulagi sem tilkynnt var um á sínum tíma. Mitt ár 2024 er tímaramminn sem verið er að horfa til, og ekki verið teknar ákvarðanir um neitt annað. En auðvitað fer það eftir því hvernig staðan verður á rekstrinum og mörkuðum almennt,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa í samtali við Viðskiptablaðið.
Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.