Salling Group, stærsta smásölufyrirtæki Danmerkur, ætlar að leggja meiri áherslu á samruna og yfirtökur en áður samkvæmt nýrri stefnu félagsins. Meðal félaga undir hatti Salling Group eru Føtex, Netto, Basalt, leikfangaverslunin BR og Blika svo dæmi séu tekin.
Anders Hagh, forstjóri Salling Group, kynnti stefnuna fyrir starfsmönnum í gær en danski viðskiptamiðilinn Børsen greinir frá.
Stefnan heitir Aspire 28 og stefnir að því að ná veltu félagsins úr um 30 milljörðum danskra króna í 100 milljarða danskra króna fyrir árið 2028. Samsvarar það um 2004 milljörðum íslenskra króna.
Hagh sagði að eina leiðin til að ná þessu markmiði væri að ráðast í fleiri yfirtökur.
„Landfræðilega erum við að sækja fram. Við erum núna á þremur mörkuðum (Þýskalandi, Póllandi og Danmörku) og ef við sjáum draumfélag til að kaupa þar þá gerum við það en við erum einnig að horfa víðar en það. Við erum að skoða okkur um í Evrópu en einna helst Norður-Evrópu,“ sagði Hagh.
Að hans mati flækjast hlutirnir því syðra sem farið er. Hagh sagði einnig að félagið væri ekki einungis að horfa á matvöruverslanir heldur sé verið að leita eftir alls kyns fyrirtækjum í öllum stærðum sem eru að vegna vel eða þurfa aukið fé til að bæta afkomuna.
Spurður um hvort félagið væri í viðræðum við einhver félög um þessar mundir vildi Hagh ekki svara því að svo stöddu.