Nýlega birti fréttamiðillinn Sifted lista yfir þau fyrirtæki sem sýnt hafa mestan vöxt tekna undanfarin þrjú ár á Norðurlöndunum og meðal Benelux-ríkja. Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Smitten var þar í 15. sæti á listanum.
Smitten, stefnumótaforrit sem var stofnað af Íslendingum og er með höfuðstöðvar í Reykjavík, var þá einnig í 70. sæti yfir gjörvalla Evrópu.
„Niðurstaðan er frábær viðurkenning fyrir okkur og veitir okkur byr undir báða vængi. Smitten hefur náð góðri fótfestu í Svíþjóð, Noregi og Danmörku, auk Íslands, og við erum að sækja tekjur frá þeim mörkuðum,“ segir Davíð Örn Símonarson, framkvæmdastjóri og annar stofnenda Smitten.
Smitten er með rúmlega 400 milljónir í árstekjur sem koma í gegnum áskriftir notenda. Það hefur hlotið fjármögnun upp á tæplega tvo milljarða. Í tilkynningu segir að fá stefnumótaöpp í heiminum hafi fengið jafn mikla fjárfestingu og Smitten.
„Við höfum lagt gríðarlegan metnað á undanförnum árum í að auka virði áskriftarleiða fyrir viðskiptavini okkar, sem hefur skilað sér í miklum tekjuvexti. Þó að grunnvaran sé mjög góð, þá eru mörg sem kjósa að fara áskriftarleiðina til þess að fá betri innsýn inn í stefnumótalíf sitt,“ segir Ingi Brown, tekju- og vaxtarstjóri Smitten.