Mótmæli hafa staðið yfir í Keníu vegna fjárlagafrumvarps sem var nýlega samþykkt af þinginu þar í landi. Minnst 22 hafa látið lífið og var einnig kveikt í hluta þingsins þegar mótmælendur réðust á það í gær.

William Ruto, forseti Keníu, ákvað rétt í þessu að draga frumvarpið til baka og sagði að vilji fólksins gagnvart frumvarpinu hefði verið skýr.

Frumvarpið var mjög óvinsælt meðal íbúa í Keníu en það hafði meðal annars hækkað skatta á almenna borgara og fyrirtæki sem búa nú þegar við háan framfærslukostnað.

Mótmæli hafa staðið yfir í Keníu vegna fjárlagafrumvarps sem var nýlega samþykkt af þinginu þar í landi. Minnst 22 hafa látið lífið og var einnig kveikt í hluta þingsins þegar mótmælendur réðust á það í gær.

William Ruto, forseti Keníu, ákvað rétt í þessu að draga frumvarpið til baka og sagði að vilji fólksins gagnvart frumvarpinu hefði verið skýr.

Frumvarpið var mjög óvinsælt meðal íbúa í Keníu en það hafði meðal annars hækkað skatta á almenna borgara og fyrirtæki sem búa nú þegar við háan framfærslukostnað.

Ríkisstjórnin hafði fjarlægt nokkur atriði úr frumvarpinu en það hafði meðal annars hækkað skatt á brauð um 16% og sett 25% skatt á matarolíu. Innflutningsgjöld áttu þá einnig að hækka úr 2,5% í 3% og var bílaeigendum einnig gert að greiða árlegt gjald sem samsvaraði 2,5% af virði bílsins.

Minnst 22 létu lífið í mótmælunum í Keníu í gær.
© epa (epa)

Mwiti Bonface Nyax, læknir í höfuðborginni Nairobi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að mótmælin hafi snúist um mun meira en bara fjárlagafrumvarpið. Hann segir að íbúar í Keníu séu orðnir langþreyttir á rótgróinni spillingu, sóun á auðlindum og skuldum hjá hinu opinbera.

„Við vorum líka með fjárlagafrumvarp fyrir 2023/2024 sem var samþykkt á síðasta ári en náði þó ekki að innheimta áætlaðar tekjur. Þær voru um 30% minni en spár gerðu ráð fyrir, þrátt fyrir að virðisaukaskattur á eldsneyti hafi til dæmis hækkað úr 7% í 16%. Þessar hækkanir gerðu líf flestra heimila óbærilegt.“

Hann segir íbúa Keníu búa nú þegar við háa skatta og hefði þetta frumvarp bætt ofan á það. Gjöld verða til að mynda lögð á hluti eins og dömubindi, bleyjur og aðrar hreinlætisvörur.

Aðspurður um álit almennings gagnvart forsetanum segir Mwiti að fólk sé ekki reitt út í Ruto sjálfan, sem var kosinn með yfirgnæfandi meirihluta. Reiðin sé frekar í garð hroka stjórnmálastéttarinnar sem hlusti ekki á almenna borgara.

„Eitt sem fólk verður að átta sig á er að 68% íbúa í Keníu eru yngri en 40 ára. Atvinnuleysi meðal ungs fólks, háir skattar, hroki stjórnmálamanna og hár framfærslukostnaður var því kjarni mótmælanna.“