Segja má að ögurstund sé runnin upp hvað verðstöðugleika varðar, en fátt bendir til þess að fjármálastöðugleika sé ógnað þrátt fyrir að staðan hvað verðbólgu og vexti varðar næsta haust kunni að hafa mikil áhrif næstu árin.
Mikill fjöldi fasteignakaupenda með lán upp á samtals fleiri hundruð milljarða króna horfir nú fram á tvöföldun afar lágra fastra óverðtryggðra vaxta frá því stýrivextir voru mun lægri í heimsfaraldrinum.
Alls verða fastir óverðtryggðir vextir – sem er algengasta einstaka vaxtafyrirkomulagið í dag með rétt tæplega 30% hlutdeild – endurskoðaðir á íbúðalánum upp á tæpa 140 milljarða króna á seinni helmingi þessa árs og fyrri helmingi þess næsta.
Vegnir meðalvextir þeirra í dag eru 4,3% en við endurskoðun færast þeir yfir á markaðsvexti, sem í dag eru hér um bil tvöfalt hærri eða á bilinu 8,15-8,5% hjá stóru bönkunum. Næsta 12 mánaða tímabilið þar á eftir koma svo 370 milljarðar til viðbótar á að meðaltali 4,7% vöxtum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaði vikunnar sem kom út í morgun.