„Loksins tókst einhverjum að finna góð not fyrir tilgangslausustu iðju hlutabréfamarkaðarins,“ skrifar Jason Zweig, pistlahöfundur The Wall Street Journal í dag.
Zweig fjallar þar um ákvörðun stjórnar skyndibitakeðjunnar Chipotle að gefa út jöfnunarhlutabréf (e. stock split) í lok marsmánaðar.
Stjórnin ákvað að fimmtíufalda fjölda útgefinna hluta en útgáfa jöfnunarhlutabréfa er sjaldan spennandi iðja á markaði þar sem virði eignarhlutar hvers hluthafa breytist ekki.
Það er þó ekki óalgengt að gengi skráðra félaga hækki eftir útgáfu jöfnunarhlutabréfa þar sem fjárfestar telja líklegt að velta muni aukast eftir útgáfuna.
Þetta gerðist í lok mars þegar Chipotle tilkynnti að til stæði að fimmtíufalda útgefið hlutafé. Gengi félagsins hækkaði um 3,5% beint í kjölfarið og rauk upp í 2.800 dali á hlut.
Einn hlutur í Chipotle stendur nú í 2.890 dölum, sem samsvarar um 401 þúsund krónum.
Þetta er þó ekki ástæða þess að Zweig hrósar stjórn Chipotle heldur ætlar fyrirtækið að gefa öllum rekstrarstjórum og starfsmönnum með 20 ára starfsreynslu hlutabréf samhliða útgáfu jöfnunarbréfanna.
Ef Chipotle hefði ekki gefið út jöfnunarhlutabréf hefðu möguleikar fyrirtækisins á að gefa starfsmönnum hlutabréf verið takmarkaðir.
Zweig tekur dæmi og segir að ef fyrirtækið myndi vilja gefa starfsmönnum 1.000 dali, sem samsvarar um 139 þúsund krónum á gengi dagsins, hefði Chipotle þurft að gefa þeim brot af hlutabréfi.
Marc Hodak, meðeigandi hjá umbunarráðgjafarfyrirtækinu Farient Advisors, segir í samtali við WSJ að það sé í raun „klunnalegt“ að gefa starfsmönnum brot af hlutabréfi og því stundi fyrirtæki það ekki.
En með útgáfu jöfnunarbréfanna getur fyrirtækið auðveldlega breytt starfsmönnum sínum í hluthafa. Ef enn sé miðað við 1000 dali myndi hver starfsmaður eignast rúmlega 17 hluti miðað við núverandi gengi félagsins. Án útgáfunnar myndi hver starfsmaður fá 0,35 hluti.
Þó að undirliggjandi virði sé það sama er það allt annað í augum starfsmanna að eiga 17 hluti í fyrirtækinu en brot af hundraðshluta.
Að mati Zweig er útfærsla stjórnarinnar því afar snjöll en hann vonar einnig til þess að fleiri fyrirtæki fari sambærilegar aðgerðir.
Fyrir efnahagshrunið voru margir Bandaríkjamenn með of mikið sparifé sínu og lífeyri bundið í hlutabréf hjá vinnuveitendum sínum. Nú hefur pendúllinn sveiflast í hina áttina og eiga starfsmenn ekki nægilega mikið undir í fyrirtækjunum sem þeir vinna hjá.
Það er því að von að útgáfa Chipotle á jöfnunarbréfum verði til þess að fleiri fyrirtæki geri starfsmenn að hluthöfum.