Aðferðin sem gerði Warren Buffett að einum farsælasta fjárfesti sögunnar virðist ekki ganga eins vel og áður en þó ekki endilega af þeirri ástæðu sem flestir gætu haldið, samkvæmt The Wall Street Journal.

Í áratugi hafa fjárfestar litið til virðisfjárfestinga (e. value investing) sem leiðarvísis að góðum ávöxtunartækifærum, þar sem áhersla hefur verið lögð á að kaupa hlutabréf fyrirtækja sem eru vanmetin miðað við bókfært virði þeirra.

En nú virðist önnur mæling ná betri árangri: frjálst sjóðsstreymi (e. free cash flow).

Fyrirtæki gjörbreyst á skömmum tíma

Á níunda áratugnum sýndu hagfræðingarnir Eugene Fama og Kenneth French fram á að hlutabréf sem voru ódýr miðað við bókfært virði skiluðu mun betri ávöxtun en markaðurinn í heild.

Á þeim tíma var verðmæti fyrirtækja að mestu bundið í fasteignum, vélum og öðrum áþreifanlegum eignum. Á síðustu árum hefur þetta þó gjörbreyst.

Í dag eru meira en fjórar fimmtu af eignum S&P 500 félaga óáþreifanlegar – hugverk, vörumerki og önnur óefnisleg verðmæti.

Þetta hefur valdið því að gömlu aðferðirnar ná ekki lengur að meta raunverulegt virði fyrirtækja með nægilegri nákvæmni.

Frjálst sjóðstreymi er nú talinn betri mælikvarði á fjárhagslegt heilbrigði fyrirtækja, samkvæmt The Wall Street Jorunal.

Þessi mæling lýsir þeim fjármunum sem fyrirtæki hefur eftir að rekstrarkostnaður og fjárfestingar hafa verið dregnar frá, fjármunum sem hægt er að skila beint til hluthafa.

Mjólkurkýrnar skila ávöxtun

Kauphallarsjóðir (e. exchange-traded funds) sem byggja á frjálsu sjóðstreymi hafa náð miklum vinsældum undanfarin ár.

Pacer’s U.S. Cash Cows Index, sem leggur áherslu á fyrirtæki með hæsta frjálsa sjóðastreymið í Russell 1000-vísitölunni, hefur skilað 15,7% árlegri ávöxtun á síðustu fimm árum – sjö prósentustigum betri en Russell 1000 Value-vísitalan.

Meðal fyrirtækja í COWZ-sjóðnum eru Qualcomm, Gilead Sciences og Valero Energy, sem öll skila hluthöfum umtalsverðu fé á hendi.

Þessi stefna hefur laðað að sér athygli fleiri fjárfesta og á árinu 2023 voru settir á markað nokkrir nýir sjóðir sem fylgja svipaðri stefnu, svo sem FLOW frá Global X, QOWZ frá Invesco og COWS frá Amplify ETFs.

Betri niðurstöður í erfiðu efnahagsástandi

Samkvæmt greiningu S&P Dow Jones Indices hefur frjálst sjóðstreymi sannað sig sem enn öflugri fjárfesting þegar efnahagur dregst saman og verðbólga hækkar.

Þetta gerir sjóði eins og COWZ að áhugaverðum valkosti fyrir fjárfesta sem vilja verja sig gegn sveiflum á hlutabréfamörkuðum og draga úr áhættu.

Þó að „hin mögnuðu sjö“ tæknifyrirtækin, eins og Nvidia, Apple og Tesla, hafi verið í forgrunni síðustu ára en að mati WSJ eru félög með gott frjálst sjóðstreymi nýju konungarnir á markaðinum.

Með fyrirtæki á borð við Qualcomm og Bristol-Myers Squibb í broddi fylkingar eru þessi „lausafjárkýr“ (e. Cash Cows) líklegri til að bjóða upp á stöðugri og sjálfbærari ávöxtun til lengri tíma.