Hjálmar Jóns­son, sem sagt var upp störfum í gær sem fram­kvæmda­stjóri Blaða­manna­fé­lags Ís­lands eftir tuttugu ára starf, segir að á­greiningur sinn við Sig­ríði Dögg Auðuns­dóttur for­mann einungis snúast um meint skatta­brot hennar.

Þetta kemur fram í grein sem Hjálmar birti á Vísi rétt í þessu þar sem hann segir trú­verðug­leika blaða­manna og Blaða­manna­fé­lags Ís­lands skipta höfuð­máli við lýð­ræðis­lega um­ræðu og það að­hald sem hún veiti.

„Á­greiningur minn við nú­verandi for­mann Blaða­manna­fé­lags Ís­lands (BÍ) snýst einungis um meint brot hennar á skatta­lögum og skort á því að gera hreint fyrir sínum dyrum þegar fjöl­miðlar hafa gengið eftir skýringum. Það er enginn trúnaðar­brestur okkar í milli heldur er það skylda mín sem fram­kvæmda­stjóra Blaða­manna­fé­lags Ís­lands að standa vörð um orð­stír fé­lagsins. Því miður hef ég verið dá­lítið ein­mana í því hlut­verki undan­farið, en í­trekað sagt það við nú­verandi for­mann. Einnig lét ég þá skoðun í ljósi á stjórnar­fundum fé­lagsins meðan ég fékk að sækja þá. Skoðun mín hefur legið fyrir frá upp­hafi, ég hef ekki komið aftan að neinum í þessu máli,” skrifar Hjálmar.

„Í mínu ung­dæmi hétu þetta skatt­svik“

Hann segir Sig­ríði Dögg illa haldna af „ís­lensku veikinni“ eins og hann kallar það en í henni felst „að setja sjálfum sér sér­reglur og öllum öðrum aðrar reglur. Það er þjóðar­ó­siður. Ég veit ekki hversu oft ég hef upp­lifað það á fjöru­tíu ára ferli sem blaða­maður, að brota­menn setji í herðarnar og segi manni að éta það sem úti frýs, reglurnar gildi um alla aðra en þá.”

„Það liggur fyrir í sam­tölum mínum við nú­verandi for­mann að hann er sekur um að skjóta tekjum undan skatti í þrjú ár. Það hefði ekki komist upp nema vegna þess að skatt­yfir­völd kölluðu eftir upp­lýsingum frá Airbnb og fengu um síðir. Að telja ekki fram tekjur til skatts í eitt ár getur verið mis­tök, í tvö ár kannski heimska, en í þrjú ár sam­fleytt hlýtur að teljast ein­beittur brota­vilji. Í mínu ung­dæmi hétu þetta skatt­svik en á ný­ís­lensku nú­verandi formanns heitir þetta endur­á­lagning!“ skrifar Hjálmar.

Vildi aðgang að viðkvæmum persónuupplýsingum

Hann segir þetta ekki sitt mál og ömur­legt að „þurfa koma með svona lág­kúru.”

„Orð­stír Blaða­manna­fé­lagsins er hins vegar mitt mál og þau gildi sem Blaða­manna­fé­lagið stendur fyrir. Ég hef notið trúnaðar blaða­manna og fé­lags­manna í BÍ til að starfa fyrir þá í tæpa fjóra ára­tugi og það er ekki í myndinni að bregðast þeim trúnaði. For­maður Blaða­manna­fé­lags Ís­lands þarf að hafa hreinan skjöld; svo ein­falt er það. Það sorg­lega er að nú­verandi for­maður hefur tekið eigin hags­muni fram yfir hags­muni fé­lagsins. Það er til skammar fyrir nú­verandi for­mann og þá sem hafa lagt hönd á plóg.”

Hann segir þetta ekki „frekju­kalla­syndróm“ eins og ein­hver gæti haldið.

„Því til sönnunar var ég búinn að starfa vand­ræða­laust með nú­verandi for­mann í rúm tvö ár áður en upp­lýsingar um skattaunda­skot hennar komu fram.”

Það sauð hins vegar endan­lega upp úr milli þeirra í síðustu viku þegar hún vildi fá skoðunar­að­gang að reikningum fé­lagsins.

„Ég hafnaði því al­farið, enda full­kom­lega ó­eðli­legt að mínu mati. Stjórn og for­maður geta kallað eftir öllum upp­lýsingum úr bók­haldi fé­lagsins, en við­kvæmar per­sónu­upp­lýsingar um hverjir fá endur­greiddan sál­fræði­kostnað eða eru að glíma við krabba­mein, svo dæmi séu tekin, koma þeim að sjálf­sögðu ekki við. Stjórn styrktar­sjóðs BÍ kjörin á aðal­fundi af­greiðir þau mál og er bundin ströngum trúnaði. Að veita öðrum aðild að slíkum per­sónu­greinan­legum upp­lýsingum væri lög­brot og trúnaður um þessar upp­lýsingar þarf að vera hafinn yfir allan vafa.”

„Þetta er ekki ein­hver klúbbur“

Hann segir að lokum að það hafi verið gott að fá að vinna fyrir blaða­menn undan­farna fjóra ára­tugi.

„Ég tók við góðu búi frá fyrir­rennurum mínum. Svo dæmi sé tekið tapaði Blaða­manna­fé­lagið engum fjár­munum í hruninu og eigið fé þess hefur meira en tí­faldast að raun­gildi á síðustu 20 árum. Þetta hefur tekist þrátt fyrir að ekkert ís­lenskt stéttar­fé­lag standi jafn­vel með fé­lags­mönnum sínum og BÍ gerir að mínu mati.”

„Ég hef fundið ó­trú­lega mikinn stuðning undan­farinn sólar­hring frá fé­lögum í BÍ og fyrir það er ég hrærður og þakk­látur. Ég trúi því að stjórn fé­lagsins standi til þess að gera ein í þessari á­kvörðun sinni. Mér var boðinn starfs­loka­samningur sem ég að sjálf­sögðu hafnaði. Maður sam­þykkir ekki svona vinnu­brögð þó að allur gjald­eyris­forði Seðla­bankans sé í boði. Eða eins og vinur minn og blaða­maður til meira en 50 ára sagði við mig í gær­kvöldi: „Þetta er ekki ein­hver klúbbur, með fullri virðingu fyrir þeim, þetta er Blaða­manna­fé­lag Ís­lands!“