Japanska eignarhaldsfélagið Softbank áætlar að kaupa eigin bréf fyrir um 3,5 milljarða Bandaríkjadali eða um 483 milljarða íslenskra króna á næstu tólf mánuðum.
Samkvæmt The Wall Street Journal sýna áætlanir félagsins styrk japanskra félaga þrátt fyrir gengishrunið á mörkuðum í Asíu á mánudaginn.
Ákvörðun Softbank er líkleg til þess að hafa jákvæð áhrif á hlutabréf í Japan en eins og kunnugt er féll Nikkei-vísitalan um 12,4% á mánudaginn. Vísitalan náði þó vopnum sínum í gær og hækkaði um 10% í viðskiptum gærdagsins.
Hlutabréfaverð Softbank féll um þriðjung á mánudaginn sé tekið mið af hæsta gengi félagsins um miðjan júlí.
Árshlutauppgjör Softbank á fyrsta fjórðungi kom fjárfestum þó í opna skjöldu en eignarhaldsfélagið skilaði tapi annan fjórðunginn í röð.
Greiningaraðilar höfðu spáð hóflegum hagnaði á tímabilinu en félagið tapaði 174 milljörðum jena sem samsvara um 163 milljörðum króna á gengi dagsins.