Masayoshi Son, forstjóri Softbank, hefur tilkynnt 100 milljarða dala fjárfestingu í Bandaríkjunum yfir næstu fjögur árin. Forstjórinn greindi frá þessu í heimsókn sinni í Mar-a-Lago þar sem hann fundaði með Donald Trump, verðandi forseta Bandaríkjanna.
Fjárfestirinn og stofnandi japanska tæknifjárfestingafyrirtækisins gaf út sameiginlega tilkynningu með Trump þar sem hann lofar að skapa 100 þúsund ný störf á sviði gervigreindar og innviðauppbyggingar.
Fjármögnunin gæti komið frá ýmsum fyrirtækjum sem heyra undir stjórn Softbank, þar á meðal Vision Fund og Arm Holdings. Softbank hefur þá einnig nýlega tilkynnt 1,5 milljarða dala fjárfestingu í OpenAI, tæknifyrirtækinu á bak við ChatGPT.
Forstjóri Softbank og Trump gáfu út svipaða tilkynningu árið 2016 eftir að Trump var fyrst kjörinn forseti en þá ákvað japanska fyrirtækið að fjárfesta 50 milljarða dala í Bandaríkjunum með það að markmiðið að skapa 50 þúsund ný störf.