Ári áður en Eimskip játaði sekt og gerði sátt við Samkeppniseftirlitið um að hafa átt í samráði við Samskip á árunum eftir hrun, sagði skipafélagið að rangfærslur í frumniðurstöðum SKE væru óteljandi.
Eftirlitið hefði sett fram staðhæfingar „gegn betri vitund“ sem væru í andstöðu við gögn málsins og fyrir hendi væru réttmætar ástæður til að draga óhlutdrægni starfsmanna SKE í efa.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um sakar Samskip nýja forsvarsmenn Eimskips um að hafa keypt sig frá málinu með falskri játningu en að því sem Samskip kemst næst er afstaða fyrrum forsvarsmanna Eimskips um að engin brot hafi átt sér stað, óbreytt.
Andmæli fyrirtækjanna tveggja í málinu eru á mörg þúsund blaðsíðum sem er þó dropi í haf ákvörðunar eftirlitsins sem var gefin út í fjórtán bindum. Sátt Eimskipsmanna í málinu og játning þeirra er þó ekki nema þrjár blaðsíður.
Athygli vekur að Eimskip, sem er markaðsráðandi í sjóflutningum á Íslandi, var leyft að ljúka málinu með verulega lækkaða sekt án þess að eftirlitið krefðist þess að fá frekari gögn, upplýsingar eða framburði frá forsvarsmönnum, játningu þeirra til stuðnings.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér.