Forsvarsmenn Eimskips höfnuðu alfarið öllum málatilbúnaði Samkeppniseftirlitsins er varðar meint samráð skipafélagsins við Samskip á árunum eftir hrun í ítarlegu og rökstuddu máli í tveimur andmælaskjölum árið 2020.
Innan við ári síðar ákváðu nýir stjórnendur Eimskips að hefja formlegar viðræður við eftirlitið og gera sátt í málinu.
Í andmælaskjölum Eimskips sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum sakaði skipafélagið Samkeppniseftirlitið um að setja fram staðhæfingar sem væru í andstöðu við gögn málsins og „gegn betri vitund Samkeppniseftirlitsins“.
„Gögn máls eru rangtúlkuð, ályktanir dregnar sem enga stoð eiga í gögnum málsins, og skipulega litið fram hjá öllum gögnum sem samræmast ekki kenningu Samkeppniseftirlitsins.“
Eimskip dregur jafnframt heilindi starfsmanna Samkeppniseftirlitsins í efa og segir að „rannsóknin hafi verið á hendi starfsmanna sem teljast vanhæfir í skilningi 4. gr. stjórnsýslulaga“.
„Þannig liggur fyrir að þeir hafa á meðan rannsókn á hendur félaginu hefur staðið yfir, jafnframt sinnt sakamálarannsókn á hendur tilteknum starfsmönnum, sýnilega með ætlaða sekt þeirra að leiðarljósi. Eru því fyrir hendi réttmætar ástæður til að draga óhlutdrægni þeirra [starfsmanna SKE] í efa,“ segir í síðara andmælaskjali Eimskips frá júní 2020.
„Ekki unnt að upplýsa um eitthvað sem er tilbúningur SKE“
Rétt er að hafa í huga að Eimskip játaði síðan á sig sekt í málinu og samþykkti að greiða 1,5 milljarð króna í sekt.
Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um sakar Samskip nýja forsvarsmenn Eimskips um að hafa keypt sig frá málinu með falskri játningu en að því sem Samskip kemst næst er afstaða fyrrum forsvarsmanna Eimskips um að engin brot hafi átt sér stað, óbreytt.
Hornsteinn málsins er hið svokallaða „NR-samráð“ sem Samkeppniseftirlitið sauð saman úr tveimur glærukynningum.
Annars vegar glærukynningunni „Nýtt upphaf“ frá Eimskip og verkefninu „Revised budget“ hjá Samskipum. Hugtakið varð til á skrifstofu eftirlitsins með því að slengja saman upphafsstöfum verkefnanna tveggja.
„Allt hið ætlaða samráð félaganna er í andmælaskjölunum rakið til þessarar einu glærukynningar. Er búið til eitthvað sem nefnt er „NR-samráðsverkefnið“, en nafn þess á rætur að rekja til tveggja skjala, annars vegar PowerPoint-kynningar sem aldrei var notuð og hins vegar þess sem virðist vera endurskoðuð fjárhagsáætlun Samskipa, en skjölin tvö tengjast ekki með neinum hætti. „NR-samráðsverkefnið“ er tilbúningur Samkeppniseftirlitsins einn, og öll lögmæt venjuleg viðskipti félaganna sögð liður í þeim tilbúningi,“ segir í síðari andmælum Eimskips í júní 2020.
Samkeppniseftirlitið, sem bjó til hugtakið NR-samráð, sakaði síðan forsvarsmenn beggja skipafélaga um að hafa veitt villandi upplýsingar með því að upplýsa ekki eftirlitið um hið svokallaða „NR-samráðsverkefni“.
Líkt og í andmælum Samskipa kom þetta flatt upp á forsvarsmenn Eimskips sem segja í andmælum sínum að eðli máls samkvæmt sé „ekki unnt að upplýsa um eitthvað sem er tilbúningur Samkeppniseftirlitsins einn“.
Að mati Eimskips eru síðan „óteljandi rangfærslur þar sem dregnar eru ályktanir sem beinlínis stangast á við gögn málsins” í málatilbúnaði SKE.
Í ítarlegum andmælum Samskipa kemur fram að fyrirtækið hafði aldrei heyrt um né séð glærukynninguna „Nýtt upphaf“ fyrr en Samkeppniseftirlitið sendi þeim andmælaskjal með gögnum málsins.
Samkeppniseftirlitið fór í ítarlega húsleit hjá báðum félögum á árunum 2013 og 2014 og fannst glærukynningin ekki í fórum Samskipa „enda um innanhússgagn Eimskips“ að ræða.
Í andmælum Eimskips kemur síðan fram að umrædd glærukynning sem er inntak ætlaðs samráðs hafi aldrei komið til framkvæmda innanhúss hjá Eimskipi.
„Samtímagögn sýna hins vegar skýrt að ekkert af því sem rakið er í kynningunni kom til framkvæmda.“
„Kynningin fól í sér allar mögulegar hugmyndir til hagræðingar, og samtímagögn sýna skýrt að allar voru þær háðar fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins, ef láta ætti á einhverja þeirra reyna.“
Eimskip bendir á að umræddur „vinnuhópur“ sem talað er um í glærukynningunni hafi aldrei komið saman. Þá láti Samkeppniseftirlitið það sér sem vind um eyru þjóta að í gögnum Eimskips segi meðal annars: „Ljóst er að við þurfum samþykki SKE á þessu samkomulagi. Ef þið eruð sáttir við þetta svona þá sendum við á SKE.“