For­svars­menn Eim­skips höfnuðu al­farið öllum mála­til­búnaði Sam­keppnis­eftir­litsins er varðar meint sam­ráð skipa­fé­lagsins við Sam­skip á árunum eftir hrun í ítar­legu og rök­studdu máli í tveimur and­mæla­skjölum árið 2020.

Innan við ári síðar á­kváðu nýir stjórn­endur Eim­skips að hefja form­legar við­ræður við eftir­litið og gera sátt í málinu.

Í and­mæla­skjölum Eim­skips sem Við­skipta­blaðið hefur undir höndum sakaði skipa­fé­lagið Sam­keppnis­eftir­litið um að setja fram stað­hæfingar sem væru í and­stöðu við gögn málsins og „gegn betri vitund Sam­keppnis­eftir­litsins“.

„Gögn máls eru rang­túlkuð, á­lyktanir dregnar sem enga stoð eiga í gögnum málsins, og skipu­lega litið fram hjá öllum gögnum sem sam­ræmast ekki kenningu Sam­keppnis­eftir­litsins.“

Eim­skip dregur jafn­framt heilindi starfs­manna Sam­keppnis­eftir­litsins í efa og segir að „rann­sóknin hafi verið á hendi starfs­manna sem teljast van­hæfir í skilningi 4. gr. stjórn­sýslu­laga“.

„Þannig liggur fyrir að þeir hafa á meðan rann­sókn á hendur fé­laginu hefur staðið yfir, jafn­framt sinnt saka­mála­rann­sókn á hendur til­teknum starfs­mönnum, sýni­lega með ætlaða sekt þeirra að leiðar­ljósi. Eru því fyrir hendi rétt­mætar á­stæður til að draga ó­hlut­drægni þeirra [starfs­manna SKE] í efa,“ segir í síðara and­mæla­skjali Eim­skips frá júní 2020.

„Ekki unnt að upp­lýsa um eitt­hvað sem er til­búningur SKE“

Rétt er að hafa í huga að Eim­skip játaði síðan á sig sekt í málinu og sam­þykkti að greiða 1,5 milljarð króna í sekt.

Líkt og Við­skipta­blaðið hefur fjallað um sakar Sam­skip nýja for­svars­menn Eim­skips um að hafa keypt sig frá málinu með falskri játningu en að því sem Sam­skip kemst næst er af­staða fyrrum for­svars­manna Eim­skips um að engin brot hafi átt sér stað, ó­breytt.

Horn­steinn málsins er hið svo­kallaða „NR-sam­ráð“ sem Sam­keppnis­eftir­litið sauð saman úr tveimur glæru­kynningum.

Annars vegar glæru­kynningunni „Nýtt upp­haf“ frá Eim­skip og verk­efninu „Revised bud­get“ hjá Sam­skipum. Hug­takið varð til á skrif­stofu eftir­litsins með því að slengja saman upp­hafs­stöfum verk­efnanna tveggja.

„Allt hið ætlaða sam­ráð fé­laganna er í and­mæla­skjölunum rakið til þessarar einu glæru­kynningar. Er búið til eitt­hvað sem nefnt er „NR-sam­ráðs­verk­efnið“, en nafn þess á rætur að rekja til tveggja skjala, annars vegar Power­Point-kynningar sem aldrei var notuð og hins vegar þess sem virðist vera endur­skoðuð fjár­hags­á­ætlun Sam­skipa, en skjölin tvö tengjast ekki með neinum hætti. „NR-sam­ráðs­verk­efnið“ er til­búningur Sam­keppnis­eftir­litsins einn, og öll lög­mæt venju­leg við­skipti fé­laganna sögð liður í þeim til­búningi,“ segir í síðari and­mælum Eim­skips í júní 2020.

Sam­keppnis­eftir­litið, sem bjó til hug­takið NR-sam­ráð, sakaði síðan for­svars­menn beggja skipa­fé­laga um að hafa veitt villandi upp­lýsingar með því að upp­lýsa ekki eftir­litið um hið svo­kallaða „NR-sam­ráðs­verk­efni“.

Líkt og í and­mælum Sam­skipa kom þetta flatt upp á for­svars­menn Eim­skips sem segja í and­mælum sínum að eðli máls sam­kvæmt sé „ekki unnt að upp­lýsa um eitt­hvað sem er til­búningur Sam­keppnis­eftir­litsins einn“.

Að mati Eim­skips eru síðan „ó­teljandi rang­færslur þar sem dregnar eru á­lyktanir sem bein­línis stangast á við gögn málsins” í mála­til­búnaði SKE.

Í ítar­legum and­mælum Sam­skipa kemur fram að fyrir­tækið hafði aldrei heyrt um né séð glæru­kynninguna „Nýtt upp­haf“ fyrr en Sam­keppnis­eftir­litið sendi þeim and­mæla­skjal með gögnum málsins.

Sam­keppnis­eftir­litið fór í ítar­lega hús­leit hjá báðum fé­lögum á árunum 2013 og 2014 og fannst glæru­kynningin ekki í fórum Sam­skipa „enda um innan­húss­gagn Eim­skips“ að ræða.

Í and­mælum Eim­skips kemur síðan fram að um­rædd glæru­kynning sem er inn­tak ætlaðs sam­ráðs hafi aldrei komið til fram­kvæmda innan­húss hjá Eim­skipi.

„Sam­tíma­gögn sýna hins vegar skýrt að ekkert af því sem rakið er í kynningunni kom til fram­kvæmda.“

„Kynningin fól í sér allar mögu­legar hug­myndir til hag­ræðingar, og sam­tíma­gögn sýna skýrt að allar voru þær háðar fyrir­vara um sam­þykki Sam­keppnis­eftir­litsins, ef láta ætti á ein­hverja þeirra reyna.“

Eim­skip bendir á að um­ræddur „vinnu­hópur“ sem talað er um í glæru­kynningunni hafi aldrei komið saman. Þá láti Sam­keppnis­eftir­litið það sér sem vind um eyru þjóta að í gögnum Eim­skips segi meðal annars: „Ljóst er að við þurfum sam­þykki SKE á þessu sam­komu­lagi. Ef þið eruð sáttir við þetta svona þá sendum við á SKE.“