Bandarískir hlutabréfamarkaðir tóku stökk upp á við í kvöld, þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti skyndilega 90 daga frestun á nýjum innflutningstollum til yfir 75 ríkja.
Yfirlýsingin, sem birtist rétt eftir hádegi að staðartíma á samfélagsmiðlinum Truth Social, breytti viðhorfi fjárfesta á einni svipan og hratt af stað einni stærstu hækkun í sögu Wall Street.
Nasdaq-vísitalan, þar sem tæknifyrirtækin eru þungamiðjan, rauk upp um 12,2% en um að ræða mestu dagsbreytingu hennar frá janúar 2001.
S&P 500 hækkaði um 9,5% á meðan Dow Jones hækkaði um 7,9%, sem er stærsta dagsbreyting vísitölunnar frá árinu 2020.
Uppgangurinn í Dow nam alls 2.963 punktum, sem er stærsta staka hækkun í punktum sem mælst hefur, samkvæmt gögnum frá Dow Jones Market Data.
Heildarmarkaðsvirði bandarískra hlutabréfa jókst um meira en 3 billjónir (e.trillion) dala á nokkrum klukkutímum.
„Meira en 75 ríki hafa óskað eftir að semja og ekki brugðist við á neinn hátt – að minni eindregnu ósk,“ skrifaði Trump. „Því hef ég heimilað 90 daga frest og lækkaðan gagnkvæman toll í 10%, sem tekur gildi strax.“
Tæknirisarnir leiða uppganginn
Tæknirisarnir sjö bættu samanlagt um 1,8 billjónum dala við markaðsvirði sitt sem er nýtt met. Hlutabréf Nvidia hækkuðu um 19%, sem jafngildir 440 milljarða dala hækkun í virði, Tesla fór upp um 23% og Apple og Meta hækkuðu um 15%.
Kína undanskilið – tollar þar hækkaðir í 125%
Þrátt fyrir mildari tón gagnvart flestum ríkjum herti Trump enn frekar á viðskiptastríðinu við Kína.
Í sömu færslu tilkynnti hann að tollar á kínverskar vörur yrðu hækkaðir í 125% og tóku þær hækkanir gildi samdægurs. Í svari tilkynntu kínversk stjórnvöld að þau myndu hækka innflutningstolla á bandarískar vörur í 84%, úr 34%.
Fjárfestar varfærnir með skuldabréf – gull og olía sveiflast
Áhyggjur eru enn uppi á skuldabréfamörkuðum þar sem ávöxtunarkrafa 10 ára bandarískra ríkisskuldabréfa fór hæst í 4,47% áður en hún lækkaði aftur eftir sterk útboð ríkisskuldabréfa. Gengi gulls, sem er talin örugg fjárfesting í óvissu, rauk upp um 3,8% og fór í 3.103 dali á únsu, sem er mesta dagsbreyting frá árinu 2023.
Brent-hráolíuverð féll hins vegar niður í um 66 dali á tunnuna og nálgast nú lægstu gildi frá kórónuveirufaraldrinum.
Slíkt endurspeglar áhyggjur af eftirspurnarminnkandi efnahag og versnandi horfum í heimsbúskapnum.
Yfirlýsing Trump markar viðsnúning frá harðri tollastefnu síðustu vikna, sem hafði vakið mikla óvissu á alþjóðamörkuðum.
Talsmenn bandarískra banka höfðu varað við samdrætti og vaxandi verðbólgu og Goldman Sachs hafði spáð efnahagssamdrætti á næstunni. Í kjölfar yfirlýsingarinnar felldi bankinn þá spá.
10% almenna tollar enn í gildi
Samhliða frestun tollanna hyggst hann hefja viðræður við helstu viðskiptaríki, og hafa fjármálaráðherra Scott Bessent og viðskiptaráðherra Howard Lutnick verið falið að leiða samtölin.
Lutnick lýsti því yfir á X að „heimurinn væri tilbúinn að vinna með forsetanum að því að laga alþjóðaviðskipti.“
Markaðir binda vonir við að þessi stefnumarkandi frestun feli í sér raunveruleg viðræðusambönd og dragi úr líkum á víðtækum viðskiptastríðum – en áfram ríkir spenna, sérstaklega í samskiptum Bandaríkjanna og Kína.