Eva María Sigurbjörnsdóttir hjá Eimverk Distillery er nýkomin heim af norrænni ráðstefnu í Kaupmannahöfn en þar var ákveðið að stofna samnorræn samtök viskíframleiðenda, eða Nordic Whisky Collaboration.
Ráðstefnan, sem fór fram dagana 18. og 19. mars, var sótt af 18 mismunandi viskíframleiðendum og var þetta í fyrsta sinn sem slík ráðstefna fór fram.
„Þetta er söguleg stund fyrir norræna viskíiðnaðinn og við höfum loksins stofnað samstarf til að styrkja og auglýsa norrænt viskí á heimsmarkaði,“ segir í tilkynningu frá Nordic Whisky Collaboration, sem verður formlega sett á laggirnar á næstunni.
Eva segir að ráðstefnan hafi verið mjög áhugaverð en hittingurinn hafði verið í vinnslu í hátt í tvö ár. Þá hafði loksins tekist að koma fyrirtækjunum saman en hún segir að margir af þeim smáu viskíframleiðendum á Norðurlöndunum glími við svipaðar áskoranir.
„Við vorum að stórum hluta að hugsa fyrst og fremst um vernd, þannig að það sé ekki verið að flytja inn vörur frá öðrum löndum og merkja þær sem norrænar. Þar að auki eru flestir framleiðendur á Norðurlöndunum, fyrir utan Danmörku, að berjast við svipaða einokun eins og með Vínbúðina.“
Eva býst við fleiri ráðstefnum og munu framleiðendur væntanlega hittast annað hvert ár eða eftir þörfum. Hún segir þó að það sé mikilvægt að viðhalda samstarfi þar sem samkeppnin sé hörð og mikilvægt að deila þekkingu.
Þegar kemur að vernd þá segir Eva að Norðurlöndin hafi náð framförum í að vernda vörumerki sín. Norskt ákavíti, sænskur vodki og íslenskt gin njóta til að mynda öll verndar en hún bætir við að á Íslandi sé hins vegar enginn sem geti framfylgt vernduninni.
„Það er líka mikilvægt fyrir neytendur að þeir viti að þeir séu að kaupa það sem stendur á vörunni. Þá er líka bara spurning, ætlum við að standa vörð um framleiðsluna og virða rétta merkingu eða ætlum við að leyfa villta vestrinu að halda áfram?“