Evrópski seðlabankinn hækkaði meginvexti sína um 25 punkta í dag í von um að ná þrálátri verðbólgu evrusvæðisins niður þrátt fyrir viðvaranir um að frekari vaxtahækkanir gætu valdið efnahagslegum samdrætti meðal aðildarríkja.
Um er að ræða tíunda hækkun bankans í röð en meginvextir bankans eru nú 4% eftir að hafa verið neikvæðir í fyrra. Christine Lagarde, forstjóri Evrópska seðlabankans, gaf þó merki um þetta gæti verið síðasta hækkun bankans í bili.
Ávöxtunarkrafa skuldabréfa á evrusvæðinu lækkaði og veiktist evran um 0,6% gagnvart Bandaríkjadal í kjölfarið af ákvörðuninni.
Uppfæra verðbólguspá bankans
Fjárfestar voru óvenju ósammála um hvort bankinn myndi halda vöxtum óbreyttum eða hækka þá lítillega í aðdraganda vaxtaákvörðunarinnar.
Samkvæmt The Wall Street Journal byggir það á hversu mikil óvissa ríkir á evrusvæðinu um hvort háir vextir og minni hagvöxtur muni hafa jákvæð áhrif á verðbólguna.
Samkvæmt hagspá bankans mun hægjast verulega á hagvexti evrusvæðisins á árinu og þá mun bankinn ekki ná verðbólgumarkmiði sínu fyrr en í fyrsta lagi 2026.
Samkvæmt uppfærðri verðbólguspá verður verðbólga á evrusvæðinu 3,2% undir lok næsta árs í stað 3% en verðhækkanir á orku- og eldsneyti spila þar stórt hlutverk.
Fjárfestar búast við því að vextir bankans verði óbreyttir fram að næsta sumri en verðbólga á evrusvæðinu stóð í stað milli mánaða og mældist 5,3% í ágúst.