Gengi mörg hundruð fyrir­tækja á aðal­mörkuðum Banda­ríkjanna fóru undir 1 dal á árinu sam­kvæmt gögnum Dow Jones Market en The Wall Street Journal greinir frá

Á föstu­daginn síðast­liðinn voru hluta­bréf 557 fyrir­tækja á aðal­mörkuðum undir einum dal en þau voru færri en 12 árið 2021.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal er í flestum til­fellum um að ræða gengis­hrun hjá sprota­fyrir­tækjum sem mörg hver fóru bak­dyra­leiðina inn á aðal­markað með sér­hæfðum yfir­töku­fé­lögum (e. SPAC).

Flest þeirra eða 464 eru skráð á Nas­daq-hluta­bréfa­markaðinn en reglur Nas­daq kveða á um að hluta­bréf skráðra fé­laga verði að vera yfir einum dal annars eiga þau í hættu á að vera af­skráð.

Tals­menn fjár­festa­verndar vilja sjá fé­lögin af­skráð enda mörg þeirra aug­ljós­lega svo­kölluð „penny stocks“ sem eiga lítið erindi í Kaup­höllina í New York eða Nas­daq.

„Hluta­bréfa­markaðir eiga að vera hlið­verðir og skrá bara al­vöru fyrir­tæki sem hafa hag fjár­festa fyrir brjósti,“ segir Rick Fleming, fyrrum starfs­maður fjár­festa­verndar hjá Verð­bréfa­eftir­liti Banda­ríkjanna.

Ráðast í öfuga skiptingu til að ná genginu upp

Sam­kvæmt reglum Nas­daq fá fé­lög sem fara undir einn dal rúmt ár til að rétta úr kútnum en tals­maður Nas­daq, segir í sam­tali við WSJ að fyrir­tæki þurfa að mæta ýmsum kröfum til við­bótar til að halda skráningu.

Alls eru 583 fé­lög á Nas­daq sem eru ekki að standast skyldur skráningar. Um er að ræða fyrir­tæki með of lítið flot eða of fáa hlut­hafa svo dæmi séu tekin.

Sam­kvæmt WSJ reyna fé­lög með gengið undir einum dal oft að komast hjá af­skráningu með því að ráðast í öfuga skiptingu hluta (e. re­ver­se stock split) til að ná genginu aftur upp.

Hlutabréf Aeye fallið um 98%

Meðal þeirra er AEye, sprota­fyrir­tæki sem þróar skynjara fyrir sjálf­keyrandi bíla, en félagið fór á markað gegnum sér­hæft yfir­töku­fé­lag árið 2021. Gengi Aeye hefur fallið um 98% frá skráningu og stendur gengið í 15 sentum í dag.

Gengið er að nálgast eitt ár undir einum dal en tals­maður fyrir­tækisins segir fé­lagið stefna á öfuga skiptingu fyrir árs­lok til að bjarga sér.

Alls hafa 255 fyrir­tæki ráðist í öfuga skiptingu á árinu sem er hækkun úr 159 fyrir­tækjum í fyrra sam­kvæmt Wall Street Horizon.

Fjölmörg tækifæri til að rétta úr kútnum

Sam­kvæmt reglum Nas­daq fá fyrir­tæki við­vörun ef gengið hefur verið undir einum dal í 30 daga. Fyrir­tæki fá þá 180 daga til að ná genginu aftur upp en að þeim loknum er hægt að sækja um 180 daga til við­bótar til þess að ráðast í öfuga skiptingu.

Þegar Nas­daq á­kveður að af­skrá fyrir­tækja geta þau jafn­framt á­frýjað á­kvörðuninni og fengið sér­stök réttar­höld til að reyna komast hjá af­skráningu en á­frýjun kostar 20 þúsund dali eða 2,8 milljónir króna.

Samruni Aurora Acquisition Corp., sérhæfðs yfirtökufélags Björgólfs Thors Björgólfssonar, og bandaríska húsnæðislánafyrirtækisins Better Mortgage fór í gegn í lok ágúst en félagið er líklegast meðal þeirra sem hefur fengið aðvörun frá Nasdaq.

Viðskipti með hlutabréf sameinaðs félags hófust formlega fimmtudaginn 24. ágúst. Hlutabréfaverð Better lækkaði um 93% og fór undir einn dal 28. ágúst.

Félagið hefur verið undir einum dal síðan þá og stendur í 45 sentum í dag. Útboðsgengið í frumútboði Aurora var 10 dalir.