Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum er gengi rafmyntarinnar Bitcoin í sögulegum hæðum en þegar þetta er skrifað nemur virði eins Bitcoin um 90 þúsund Bandaríkjadölum, eða sem nemur um 12,7 milljónum króna. Í byrjun nóvember stóð gengi rafmyntarinnar í tæplega 70 þúsund dölum og hefur gegnið því hækkað um tæplega þriðjung síðan.
En hvað veldur þessum miklu hækkunum? Sigur Donald Trump í nýafstöðnum forsetakosningum vestanhafs, ásamt því að Repúblikanar tryggðu sér meirihluta í báðum þingdeildum Bandaríkjaþings, er talin helsta ástæðan.
Patrekur Maron Magnússon, framkvæmdastjóri Myntkaupa, segir yfirstandandi ár hafa verið sögulegt fyrir Bitcoin af mörgum ástæðum. Myntkaup er eitt þeirra félaga sem býður Íslendingum upp á kaup og sölu rafmynta en viðskiptavinir félagsins telja rúmlega 16 þúsund manns.
„Í upphafi árs samþykkti bandaríska verðbréfaeftirlitið umsóknir Blackrock, Fidelity og níu annarra sjóða um kauphallarsjóði fyrir Bitcoin. Óhætt er að segja að innstreymi fjármagns í þessa sjóði hafi gengið framar björtustu vonum. Til marks um það má nefna að IBIT (Blackrock) situr nú á rúmlega 200 þúsund BTC, eða rétt tæplega 1% af heildarframboði myntarinnar. Með innkomu þessara sjóða hefur Bitcoin nú verið samþykkt af stofnanafjárfestum sem viðurkenndur kostur í eignasöfnum slíkra aðila.“
Þá hafi fjórða helmingun í sögu Bitcoin farið fram 19. apríl sl. „Við það helmingaðist dagleg nýmyndun Bitcoin úr 900 BTC í 450 BTC. Samkvæmt fjögurra ára hringrásarferli Bitcoin hefst nýr bolamarkaður yfirleitt nokkrum mánuðum eftir helmingunina og eru því margir rafmyntafjárfestar búnir að fá þá staðfestingu sem þeir þurfa að bolamarkaðurinn sé hafinn og binda miklar vonir við árið 2025.“
Augu markaðarins á lagafrumvarpi
Patrekur segir augu markaðarins nú beinast að frumvarpi öldungadeildarþingmannsins Cynthiu Lummis. Verði frumvarpið að lögum verður ríkissjóði Bandaríkjanna heimilt að kaupa allt að 200 þúsund Bitcoin á ári næstu 5 ár. „Í ljósi þess að Repúblikanar tryggðu sér báðar deildir þingsins hafa væntingar um að frumvarpið verði samþykkt aukist, þótt ekkert sé enn víst í þeim efnum.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.