Fjár­festar hafa verið að dæla fjár­magni inn í Kaup­hallar­sjóði og hefur inn­flæði aldrei verið meira.

Inn­flæði í kaup­hallar­sjóði í ár nam 1,4 billjónum (e.trillion) dala þann 31. október, sam­kvæmt gögnum frá eignastýringarfélaginu BlackRock.

Sam­kvæmt Financial Times má búast við að inn­flæði hafi aukist í kjölfar þess að Donald Trump vann kosninga­sigur í byrjun nóvember en tölu­verð velta hefur verið á mörkuðum eftir for­seta­kosningarnar.

Inn­flæði á fyrstu tíu mánuðum ársins er því orðið meira en allt árið 2021 þegar síðasta met var slegið en þá nam inn­flæði 1,33 billjónum dala.

Að öllu óbreyttu mun inn­flæði aukast alveg fram að árs­lokum sam­kvæmt FT en síðastliðinn miðviku­dag dældu fjár­festar 22,2 milljörðum dala inn í bandaríska Kaup­hallar­sjóði.

Sam­kvæmt FT hefur inn­flæði á degi eftir kjör­dag aldrei verið jafn mikið en síðasta met var slegið eftir for­seta­kosningarnar 2020 þegar inn­flæði nam 4,9 milljörðum dala.

„Það stefnir í metár­,“ segir Ka­rim Chedid, fjár­festinga­stjóri fyrir Kaup­hallar­sjóði BlackRock í Evrópu, Miðaustur­löndum og Af­ríku, í samtali við FT.

Þrátt fyrir að inn­flæði sé í hæstu hæðum lækkaði virði eigna í kaup­hallar­sjóðum í október úr 13,5 billjónum dala í 13,3 billjónir dala en inni í þeirri tölu eru ekki sjóðir í Kína og Ind­landi.

Sam­kvæmt Chedid eru fjár­festar að reyna að læsa inn vænta ávöxtun sem mun fylgja því þegar vextir fara lækkandi í öllum helstu hag­kerfum heims.