Fjárfestar hafa verið að dæla fjármagni inn í Kauphallarsjóði og hefur innflæði aldrei verið meira.
Innflæði í kauphallarsjóði í ár nam 1,4 billjónum (e.trillion) dala þann 31. október, samkvæmt gögnum frá eignastýringarfélaginu BlackRock.
Samkvæmt Financial Times má búast við að innflæði hafi aukist í kjölfar þess að Donald Trump vann kosningasigur í byrjun nóvember en töluverð velta hefur verið á mörkuðum eftir forsetakosningarnar.
Innflæði á fyrstu tíu mánuðum ársins er því orðið meira en allt árið 2021 þegar síðasta met var slegið en þá nam innflæði 1,33 billjónum dala.
Að öllu óbreyttu mun innflæði aukast alveg fram að árslokum samkvæmt FT en síðastliðinn miðvikudag dældu fjárfestar 22,2 milljörðum dala inn í bandaríska Kauphallarsjóði.
Samkvæmt FT hefur innflæði á degi eftir kjördag aldrei verið jafn mikið en síðasta met var slegið eftir forsetakosningarnar 2020 þegar innflæði nam 4,9 milljörðum dala.
„Það stefnir í metár,“ segir Karim Chedid, fjárfestingastjóri fyrir Kauphallarsjóði BlackRock í Evrópu, Miðausturlöndum og Afríku, í samtali við FT.
Þrátt fyrir að innflæði sé í hæstu hæðum lækkaði virði eigna í kauphallarsjóðum í október úr 13,5 billjónum dala í 13,3 billjónir dala en inni í þeirri tölu eru ekki sjóðir í Kína og Indlandi.
Samkvæmt Chedid eru fjárfestar að reyna að læsa inn vænta ávöxtun sem mun fylgja því þegar vextir fara lækkandi í öllum helstu hagkerfum heims.