Á síðustu fimm árum hefur útflæði úr hefðbundnum vogunarsjóðum náð yfir 150 milljörðum Bandaríkjadala, sem samsvarar um 21 þúsund milljörðum íslenskrar króna.
Samkvæmt Financial Times eru fjárfestar orðnir þreyttir á slæmu gengi vogunarsjóða sem hafa ekki verið að skila betri ávöxtun en hlutabréfavísitölur vestanhafs.
Um er að ræða vogunarsjóði (e. long/short equity fund) sem einblína á að verja fjárfesta fyrir markaðssveiflum með því að fjárfesta og skortselja eftir þörfum.
Fjárfestingastefna sem hefur verið við lýði frá árinu 1949 og oft kennd við Alfred Winslow Jones en náði gríðarlegum vinsældum á bjarnarmarkaði tíunda áratugar síðustu aldar.
310 dalir eða 163 dalir?
Velgengnin fylgdi vogunarsjóðunum inn á nýju öld þar sem þeir margir hverjir skortseldu fyrirtæki í netbólunni.
Staðan vestanhafs er þó allt önnur í dag en sjóðir sem sporrekja hlutabréfavísitölur hafa skilað mun betri ávöxtun með minni þóknun.
Samkvæmt greiningu FT og Nasdaq eVestment myndi fjárfestir sem setti 100 dali í hefðbundinn vogunarsjóð fyrir tíu árum eiga 163 dali í dag. Ef sami fjárfestir hefði sett 100 dali í sjóð Vanguard sem sporrekur S&P 500 vísitöluna ætti hann 310 dali.
„Vogunarsjóðurinn þarf ekki að skila betri ávöxtun en S&P 500 á hverju ári en þú vilt þeir sigri vísitölurnar yfir lengri tíma,“ segir framkvæmdastjóri lífeyrissjóðs í samtali við FT sem vill ekki koma fram undir nafni, enda með milljarða bandaríkjadala í vogunarsjóðum vestanhafs.
Samkvæmt FT eru fjárfestar orðnir þreyttir á afsökunum síðastliðinn áratug og hefur útflæðið því aukist.
Síðustu 23 mánuði hefur nettó útflæði verið úr hefðbundnum vogunarsjóðum og hafa eignir slíkra sjóða rýrnað um 723 milljarða dali, samkvæmt Nasdaq eVestment.
Stór hluti útflæðisins hefur farið inn í fjölbreyttari vogunarsjóði sem eru ekki jafn háðir upp og niðursveiflum hlutabréfamarkaðarins.